Vegna umræðu í tengslum við áform um föngun villikatta

Að undanförnu hefur verið nokkuð lífleg umræða bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sem rekja má til áforma Fljótsdalshéraðs um föngun villikatta dagana 18. febrúar til 8. mars nk.

Ástæða þess að fyrirhugað er að ráðast í þessar aðgerðir er sú að í desember á nýliðnu ári barst sveitarfélaginu formleg ósk frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands um að ráðist verði í átak til að fækka villiköttum á Egilsstöðum og í Fellabæ með vísan til gildandi samþykkta þar um. Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar sveitarfélagsins samþykkti bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs á fundi sínum miðvikudaginn 6. febrúar 2019 að verða við ósk Heilbrigðiseftirlitsins og var starfsmönnum sveitarfélagsins falin framkvæmdin í febrúar og/eða í mars í samræmi við fyrirliggjandi verklag.

Tilkynnt var um þetta með auglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins sem og í staðarfjölmiðlum þar sem m.a. var vísað til gildandi samþykkta sem og laga um velferð dýra. Einnig kom fram að eigendur óskráðra katta væru hvattir til að skrá dýr sín sem fyrst hjá sveitarfélaginu.

Í tengslum við þetta hefur í umræðunni m.a. komið fram að sveitarfélagið hafi hafnað samningi um samstarf við félagasamtökin Villiketti um að sinna dýravelferð í bæjarlandi Fljótsdalshéraðs. Þarna er verið að vísa til erindis er sveitarfélaginu barst á sínum tíma frá umræddum félagasamtökum. Sú fagnefnd sveitarfélagsins sem með þennan málaflokk hefur að gera fyrir hönd sveitarfélagsins ákvað að leita álits annars vegar Heilbrigðiseftirlits Austurlands og hins vegar Matvælastofnunar áður en afstaða yrði tekin til erindisins. Að fengnum umsögnum umræddra stofnana, sem í báðum tilvikum komust að þeirri niðurstöðu að áform félagasamtakanna stæðust hvorki gildandi samþykktir né þau lög er að málaflokknum snúa, ákvað umhverfis- og framkvæmdanefnd sveitarfélagsins að hafna erindinu sem síðan bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs staðfesti á fundi sínum miðvikudaginn 7. febrúar 2018.

Það skal áréttað að Fljótsdalshérað hefur velferð dýra að leiðarljósi við framkvæmd þess verkefnis sem framundan er enda mótast vinnulag og verkferlar af gildandi lögum og reglum um dýravelferð. Fullyrðingar um annað eiga ekki við rök að styðjast og ber að harma að ákveðnir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar skuli vera nýttir til að halda hugmyndum um annað á lofti.

Egilsstaðir 15. febrúar 2019

Björn Ingimarsson

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs