Fara í efni

,,Heiðin" gefur innsýn í veruleika Seyðfirðinga

25.04.2024 Fréttir

Þann 13. apríl síðastliðinn var sýningin Heiðin opnuð í Skaftfelli á Seyðisfirði. Sýningin samanstendur af nýlegum ljósmyndum og myndböndum eftir kanadíska ljósmyndarann Jessicu Auer.

„Heiðin“ er yfirstandandi verkefni sem kannar sögu og þróun vegs 93, hæsta fjallvegar á Íslandi og einu landleiðina til og frá Seyðisfirði. Á veturna er vegurinn lokaður dögum saman og einangrar íbúa frá vistum og restinni af samfélaginu. Þessi einstaki lífsmáti, einangraður og ótryggur, er í róttækum breytingum þar sem 13 kílómetra jarðgöng munu brátt leysa Fjarðarheiði af hólmi.

„Heiðin“ skrásetur þessa mikilvægu breytingu í gegnum mismunandi miðla; kvikmyndun, ljósmyndun og frásagnir frá undanförnum árum. Heiðin stendur til 8. júní og er opin þriðjudaga til föstudaga frá 11:00-15:00 og á laugardögum frá 12:00-16:00.

Celia Harrison forstöðumaður Skaftfells segir viðbrögðin við sýningunni vera gríðarlega jákvæð: ,,Það er ekki bara heimafólk sem hefur tekið henni fagnandi vegna sameiginlegrar upplifunnar sinnar sem samfélag heldur hefur ferðafólk einnig lýst upplifun sinni sem auðgandi og upplýsandi. Hún gefur utanaðkomandi innsýn inn í svæðið sem þau fá ekki öðruvísi.“

Þegar hún er spurð út í þýðingu sýnigar eins og þessarar segir hún: ,,Hún hefur mikla þýðingu þar sem hún er hluti af sögu Austurlands. Í gegnum myndir sínar safnar Jessica Auer sögu svæðisins saman og varpar ljósi á Fjarðarheiði í gegnum mismunandi árstíðir. ,,Heiðin“ heldur utan um þessa sögu og verndar hana fyrir komandi kynslóðir.“

Skaftfell hvetur öll til að mæta og njóta sýningarinnar!

Jessica Auer er kanadískur ljósmyndari, kvikmyndaleikstjóri og kennari sem búsett er á Seyðisfirði. Í verkum sínum lítur hún á náttúrulegt landlag sem menningarsvæði og rannsakar viðhorf samfélaga til staða. Með stórformats ljósmyndun skoðar Jessica hvernig landslag er varðveitt, því breytt, eða það söluvætt fyrir ferðamennsku. Hún hlaut MFA gráðu frá Concordia háskólanum í Montreal þar sem hún kennir ljósmyndun í hlutastarfi. Verk hennar hafa verið sýnd á söfnum, í galleríum og á hátíðum víða um heim. Jessica rekur Ströndin Studio á Seyðisfirði, stofnun sem tileinkuð er rannsóknum og fræðslu á sviði ljósmyndunar.

Mynd eftir: Jessica Auer
Mynd eftir: Jessica Auer
Getum við bætt efni þessarar síðu?