Þjóðleikur fyrir öll ungmenni

Þjóðleikhúsið mun standa fyrir verkefninu “Þjóðleik” á öllu Austurlandi næsta haust. “Þjóðleikur” er leiklistarhátíð ungs fólks og geta hópar ungmenna tekið þátt. Eina skilyrðið er að einn fullorðinn einstaklingur leiði hópinn og að leikarar séu að minnsta kosti 8-10 talsins á aldrinum 13-20 ára.

 Í minni byggðarlögum verða undanþágur auðfúslega gefnar. Hóparnir geta verið undir leiðsögn skólakennara, frá ungliðadeildum leikfélaga, frístundahópar eða jafnvel vinahópar. Markmiðið er einfalt, allir mega vera með. Það er því um að gera fyrir áhugasama að mynda hópa og stefna að þáttöku í "Þjóðleik".

Nánar um “Þjóðleik”:
Þjóðleikur sameinar nýja íslenska leikritun í hæsta gæðaflokki og leiklistarstarf ungs fólks. Þjóðleikhúsið er aðili að Vaxtarsamningi Austurlands og er í góðu samstarfi við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, sem jafnframt er miðstöð sviðslista á Austurlandi, og marga fleiri aðila á svæðinu um skipulag og framkvæmd verkefnisins, sem er bæði nýstárlegt og viðamikið.

Þrjú ný leikrit
Eitt af því sem kemur í veg fyrir að t.d. skólar setji oftar upp leiksýningar er skortur á vönduðum styttri leikverkum fyrir unga leikara. Þrjú glæný 45 mínútna leikrit verða því skrifuð sérstaklega fyrir Þjóðleik af þekktum leikskáldum af yngri kynslóðinni. Hafa þessi skáld þegar verið valin og geta hóparnir sem taka þátt valið sér eitt af þessum verkum til þess að setja upp í sinni heimabyggð, endurgjaldslaust.


Námskeið fyrir stjórnendur
Þjóðleikhúsið mun veita listrænum stjórnendum hópanna sem taka þátt í Þjóðleik aðstoð í formi faglegrar ráðgjafar og námskeiða bæði í Reykjavík og á Austurlandi frá og með október næstkomandi. Þar verða teknir fyrir þættir eins og leikmyndahönnun, sviðstækni ýmiss konar, leikstjórn og skipulag æfingaferlis. Leiðbeinendur á námskeiðunum verður listafólk sem allt er í fremstu röð hvert á sínu sviði, og því ættu stjórnendur verkefnanna að fara vel undirbúnir af stað í vinnuna með sínum hópum.


Hver hópur sýnir svo í sínum skóla eða heimabyggð á þeim tíma sem þeim hentar, en einnig er stefnt að uppskeruhátíð vorið 2009 þar sem allar sýningarnar verða sýndar á og í kringum Egilsstaði um sömu helgi á hinum ýmsu sýningarstöðum í bænum. Þar geta þátttakendur hitt annað ungt leikhúsáhugafólk af Austurlandi, spjallað við leikskáldin,  borið  saman bækur sínar og séð afrakstur hinna hópanna.
 
Opnað verður fyrir umsóknir í Þjóðleik í byrjun september næstkomandi.
 
Nánari upplýsingar veita:
 
Karen Erla Erlingsdóttir, menningar- og frístundafulltrúi Fljótsdalshéraðs
sími:  4 700 700 netfang:  karen@egilsstadir.is