Ormsteiti fer vel af stað

Fyrri helgi Ormsteitis er nú liðin og heppnaðist mjög vel. Veðurguðirnir voru Héraðsbúum og gestum þeirra frekar hliðhollir þessa dagana. Hverfahátíðin er búin að vinna sér ákveðinn sess hjá heimamönnum og var vel sótt að vanda.

Á laugardaginn var svo Möðrudalsgleðin haldin með pompi og prakt og þvílík gleði. Það hefur lengi verið hefð í Möðrudal að taka vel á móti gestum og það kunna núverandi ábúendur svo sannarlega. Auk fjalladýrðarinnar bjóða þau upp á afurðir búsins, matreiddar eftir kúnstarinnar reglum, sem smökkuðust hreint frábærlega. Tónleikar Bógomil Font og Davíðs Þórs voru líka einstök upplifun, með Herðubreið og þverrandi kvöldroðann sem leikmynd í bakgrunni og logandi kyndla sem mynduðu umgjörð um svæðið og vísuðu veginn af þjóðveginum. Að tónleikum loknum var síðan tekið vel á í dansinum langt fram eftir nóttu.

Tónleikar Eivarar í Hallormsstaðaskógi á sunnudaginn voru líka einstök upplifun og tókust einstaklega vel. Talið er að um 800 manns hafi verið á svæðinu og notið söngs gyðjunnar og magnaðs undirleiks færeyskra félaga hennar. Fjölmargir aðrir viðburðir á vegum Ormsteitis voru einnig vel heppnaðir, svo sem hnallþórukaffi í Tungubúð, Timburmannamorgunverður í Sænautaseli og myndasýning í Safnahúsinu á sunnudagskvöldið, en þar varð að bjóða upp á aukasýningu vegna mikillar aðsóknar.