Leit að nafni á félagsmiðstöð

Við sameiningu félagmiðstöðvanna Afreks og Nýungar í haust var rætt um að hugsanlega færi fram nafnabreyting á nýrri og sameinaðri félagsmiðstöð. Nú hefur verið ákveðið að efna til nafnasamkeppni þar sem unglingar á Fljótsdalshéraði fá tækifæri til að koma með tillögur að nafni félagsmiðstöðvarinnar. Frestur til að skila inn tillögum er til miðnættis fimmtudaginn 28. janúar.

Þriggja manna dómnefnd fer yfir þær tillögur sem berast og velja í framhaldinu nokkrar úr þeim hópi. Unglingum á Fljótsdalshéraði verður síðan gefinn kostur á að kjósa um nafn á félagsmiðstöðina úr tillögum dómnefndar.

Þegar nafn liggur fyrir verður efnt til keppni þar sem unglingarnir fá tækifæri til að búa til nýtt lógó fyrir félagsmiðstöðina.

Unglingar á Fljótsdalshéraði eru hvattir til að taka þátt í nafnasamkeppninni en veglegur vinningur er í boði.