Kveðja til kvenfélaga á Héraði

Í dag, 1. febrúar, er Dagur kvenfélagskonunnar. Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar á 80 ára afmæli KÍ  árið 2010. Var það gert til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna um árabil, enda löngu tímabært að kvenfélagskonur fengju sinn eigin dag á dagatalinu. Kvenfélagasamband Íslands vekur sérstaka athygli á deginum í fjölmiðlum til að festa hann enn frekar í sessi.

Á Fljótsdalshéraði eru og hafa verið starfandi mörg kvenfélög sem hafa unnið mikið og gott starf hver í sínu nærsamfélagi, en sjálfstætt kvenfélag var í öllum gömlu hreppunum á Héraði.    Þetta voru:  Kvenfélagið Askja á Jökuldal, Kvenfélag Hlíðarhrepps, Kvenfélag Hróarstungu, Kvenfélagið Dagsbrún Fellum, Kvenfélagið Eining í Fljótsdal, Kvenfélag Vallahrepps, Kvenfélag Skriðdæla,  Kvenfélagið Bláklukka Egilsstöðum, Kvenfélag Eiðaþinghár, og Kvenfélagið Björk í Hjaltastaðaþinghá. Frekari upplýsingar um kvenfélögin má sjá á síðunni: kvenfelag.is

Fljótsdalshérað óskar kvenfélagskonum á Héraði og um land allt til hamingju með daginn og þakkar fyrir allt þeirra góða starf í gegn um tíðina.