Hádegishöfði 20 ára og leikskólarnir fá heimasíður

Í dag, þriðjudaginn 21. ágúst verður haldið upp á 20 ára afmæli leikskólans Hádegishöfða í Fellabæ. Um leið og haldið verður upp á afmælið verða heimasíður allra leikskólanna á Fljótsdalshéraði formlega teknar í notkun.

Afmælishátíð verður haldin í Hádegishöfða með pompi og prakt, í garði leikskólans og hefst hún kl. 17.30. Ýmislegt skemmtilegt verður í boði s.s. hoppukastalar, teiknað á boli, andlitsmálun, grillaðar verða pylsur og boðið verður upp á afmælistertu. Auk þess verður nýtt lag og texti sem leikskólinn hefur fengið sem gjöf í tilefni dagsins frumflutt af fyrrverandi og núverandi nemendum leikskólans.

Um leið og afmælishátíðin fer fram verða heimasíður allra leikskóla Fljótsdalshéraðs formlega opnaðar. Það mun bæjarstjórinn Eiríkur B. Björgvinsson gera með dyggri aðstoð leikskólabarna frá hverjum leikskóla fyrir sig.

Nútímasamfélag gerir kröfur um auðvelt aðgengi að markvissum upplýsingum. Heimasíður gegna þar lykilhlutverki, enda hafa sífellt fleiri greitt og öruggt aðgengi að upplýsingum sem þar birtast. Enginn leikskóla sveitarfélagsins hefur haft virka heimasíðu fyrr en nú og því má segja að hér með verði lyft ákveðnu grettistaki í upplýsingagjöf. Heimasíðurnar eru byggðar í vefumsjónarkerfi sem er samþætt almennu upplýsinga- og rekstrarkerfi fyrir starfsmenn og stjórnendur leikskólanna sem nefnt hefur verið leikskolinn.is, en útlit síðnanna hefur verið fellt að almennu útliti á heimasíðu sveitarfélagsins. Vefslóðir leikskólanna eru sem hér segir: 
www.fljotsdalsherad.is/hadegishofdi
www.fljotsdalsherad.is/bruarasleikskoli
www.fljotsdalsherad.is/tjarnarland
www.fljotsdalsherad.is/skogarland
www.fljotsdalsherad.is/skogarsel

Það er von bæði starfsfólks leikskólanna og annarra sem að málefnum leikskólanna koma í sveitarfélaginu að heimasíður leikskólanna megi verða til að efla starfsemina og tengja þá enn betur við umhverfi sitt og samfélag, nær og fjær.