Gengið frá samningi um flutning skíðalyftu í Stafdal

Í gær, þriðjudaginn 18. maí, var undirritaður samningur milli Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Skíðafélagsins í Stafdal um flutning og uppsetningu skíðalyftu í Stafdal. Skíðalyftan sem staðið hefur lítið notuð í norðurbrún Fjarðarheiðar hefur verið tekin niður og verður flutt yfir á skíðasvæðið í Stafdal og verður henni komið fyrir þar fyrir ofan og í framhaldi af þeirri lyftu sem þar er nú. Flutningur lyftunnar og frágangur svæðisins í Stafdal verður að fullu lokið fyrir 1. október í haust. Fljótsdalshérað, sem á lyftuna, leggur hana til skíðasvæðisins. Einnig hefur verið samþykkt að sveitarfélögin tvö leggi til kr. 10 milljónir til flutningsins, fimm milljónir hvort , á þessu ári.

Reiknað er með að tilkoma lyftunnar gjörbreyti aðstæðum á skíðasvæðinu, geri það í fyrsta lagi mun fjölbreyttara og lengi tímann umtalsvert sem hægt er að skíða. Hægt verður að byrja fyrr á haustin og skíða lengur fram eftir á vorin.

Samninginn undirrituðu þeir Eiríkur B. Björgvinsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, Ólafur Sigurðsson bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar og Agnar Sverrisson, stjórnarmaður í Skíðafélagsinu í Stafdal.