Félagsmálastjórar funda á Héraði

Í dag og á morgun munu Samtök félagsmálastjóra halda árlegan vorfund sinn á Fljótsdalshéraði. Fundurinn er samráðasvettvangur yfirmanna verlferðarþjónustu sveitarfélaganna. Töluverð áhersla verður á stöðu efnahagsmála þjóðarinnar og áhrif hennar á velferðarþjónustuna.

Á fundinum verður einnig endurskoðun barnaverndarlaga og barnavernd á þrengingartímum til umræðu svo og heimaþjónustan og heimahjúkrun. Þá verður fjallað um áhrif breytinga á vistunarmati aldraðra á vinnu og sýn félagsþjónustunnar og yfirfærslu málaflokka frá ríki til sveitarfélaga.

Þá mun Sigrún Harðardóttir, doktorsnemi í félagsráðgjöf og fyrrverandi formaður félagsmálanefndar Héraðssvæðis, kynna verkefni sitt sem fjallar um stöðu nemenda með raskanir  (ADHD) innan skólakerfisins svo og umbakgrunn verkefnisins, það úrræðaleysi og jafnvel þekkingarleysi í umhverfi barnanna sem kemur í veg fyrir að þau geti nýtt þroskamöguleika sína sem skildi.