Deildastjórar útskrifast úr stjórnendaþjálfun

Mánudaginn 8. september luku tíu sviðsstjórar hjá Fljótsdalshéraði stjórnendaþjálfun sem kallast „Árangur í starfi“. Haldinn var útskriftarfundur í fundarsal bæjarstjórnar á Egilsstöðum, þar sem allir þátttakendur gerðu grein fyrir þeim árangri sem þeir höfðu náð í þjálfuninni.

Frá því í janúar á þessu ári hafa allir sviðsstjórar Fljótsdalshéraðs ásamt bæjarstjóra tekið þátt í stjórnendaþjálfuninni „Árangur í starfi“ frá Leadership Management® International (LMI). Auk þess að þátttakendur nýttu sér lesefni og verkefni þjálfunarpakkans, tóku þeir þátt í sex þjálfunarfundum á tímabilinu. Beitt var mismunandi námsaðferðum til að þróa þekkingu og viðhorf þátttakenda með því markmiði að þeir lærðu að nýta færni sína til fullnustu. „Árangur í starfi“ er aðgerða- og árangursmiðuð þjálfun, þar sem þátttakendur læra að nota ýmis hagnýt stjórnunarverkfæri. Að baki allri stjórendaþjálfun frá LMI er sú hugmynd að til ná árangri á 21. öldinni verði fyrirtæki og stofnanir að koma sér upp leiðtogum á öllum stigum starfseminnar. Síbreytilegar aðstæður kalla á skapandi stýringu, leiðtogahæfileika og færni til að koma hugmyndum í framkvæmd.

Halldór Sig. Guðmundsson þjálfaði stjórnendurna. Í lokaávarpi gat hann þess að „þjálfunarferlið hafi einkennst af miklum áhuga þátttakenda og vilja þeirra til að ná enn meiri árangri í starfi. Miðað við þann árangur sem þátttakendur náðu á þjálfunartímabilinu er ekki vafi á að stjórnendaþjálfunin muni koma sveitarfélaginu og stjórnendum þess að enn frekari notum í framtíðinni, sagði Halldór.“