700IS auglýsir eftir myndum

700IS Hreindýraland – alþjóðleg tilraunakvikmynda- og videóhátíð á Austurlandi, hefur auglýst eftir myndum til þátttöku í hátíðnni sem fram fer á Egilsstöðum í mars 2010. Tekið verður við myndum til umsóknar frá 4. nóvember – 4. desember 2009. Að þessu sinni er þema hátíðarinnar 2010 „hljóð og vídeó“, en engu að síður er tekið við öllum tilraunamyndum.

Í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar kemur fram að að þessu sinni er eingöngu tekið við myndum gegnum internetið og er það meðal annars gert til að halda niðri umfangi póstsendinga, en undanfarin ár hafa allt að 500 umsóknir borist hátíðinni á Egilsstöðum.

Verk eftir listamenn sem búsettir eru í Evrópu og taka þátt í 700IS Hreindýraland, verða sjálfkrafa gjaldgeng í keppnina um Alternative Routes verðlaunin. Alternative Routes er samstarfsverkefni hátíða í Debrecen í Ungverjalandi, Porto í Portúgal, Liverpool á Bretlandi og á Egilsstöðum.

Á hverri hátíð innan Alternative Routes er einn listamaður/verk valinn í hóp sem síðan sýnir verk sín á öllum hátíðunum; í Debrecen í maí 2010, Porto í nóvember 2010, Egilsstöðum í mars 2011 og að lokum í Liverpool í apríl 2011. Þessir listamenn munu ferðast til allra staðanna 2010 og 2011 og verður ferðakostnaður og uppihald þeirra greitt, svo og 1.000 € peningaverðlaun. Alternative Routes nýtur fjárstuðnings Evrópusambandsins. Samstarfsaðili Hreindýraland – 700IS er Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs.

Nánari upplýsingar um 700IS Hreindýraland er að finna á heimasíðu hátíðarinnar www.700.is. Þar er hægt að nálgast rafrænt þátttökueyðublað, sjá hverjir styrkja 700IS,
hverjir hafa verið þátttakendur fyrri hátíða og aðrar upplýsingar.

700IS er líka á Facebook – Reindeerland Iceland.