Múlaþing vinsælasta nafnið

Samhliða forsetakosningum sem haldnar voru laugardaginn 27. júní gátu íbúar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar tekið þátt í könnun á nafni á nýju sameinuðu sveitarfélagi. Í boði var að velja á milli nafnanna Austurþing, Austurþinghá, Drekabyggð, Múlabyggð, Múlaþing og Múlaþinghá. Öllum íbúum sveitarfélaganna, 16 ára og eldri, var gefinn kostur á að taka þátt í valinu en atkvæði greiddu 62% þeirra.

Kosið var með raðvali þar sem kjósendur gátu merkt við tvo valkosti af þeim sex sem í boði voru og tekið fram hvorn kostinn þeir vildu helst. Nafnið Múlaþing fékk flest atkvæði, bæði í fyrsta sæti og samanlagt hjá þeim íbúum Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar sem tóku þátt í nafnakönnuninni. Í öðru sæti varð nafnið Drekabyggð.
Könnunin er ráðgefandi fyrir nýja sveitarstjórn sem kosin verður í september og tekur til starfa í október, sem aftur sendir tillögu sína til sveitarstjórnarráðherra til endanlegrar ákvörðunar.