Margt um að vera á Ormsteiti um helgina

Ormsteiti lýkur um helgina.  Ýmsir viðburðir eru í boði frá og með deginum í dag. En föstudagurinn er sérstaklega helgaður eldri borgurum. Til dæmis er hægt að nálgast handverk og harmónikkuleik í tjaldinu í miðbæ Egilsstaða frá klukkan 13.

Klukkan 15 mun Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra, fara þar með gamanmál.  Klukkan 16 flytur Bergur Thorberg nokkur lög og kynnir list sína og klukkan 17 opnar Helga Unnarsdóttir, leirlistakona, sýningu á verkum sínum í Sláturhúsinu á sama tíma og á sama stað opna þeir Ólafur Th. Ólafsson og Vignir Jóhannsson sýningu sína Le Fog. Klukkan 18 verða Ólöf Björk Bragadóttir (Lóa) og Sigurður Ingólfsson með upplestur og framhald sýningarinnar Dúett í Gallerí Bláskjá.  Klukkan 20.30 um kvöldið hefst svo árgangamót fyrir útskrifaða nemendur úr Egilsstaðaskóla þar sem Kristinn Kristmundsson verður með vynilplötudiskótek.  Nokkuð sem enginn má missa af. 

Á laugardeginum hefst skrúðganga Ormsins langa frá tjaldinu klukkan 9.30 niður að Lagarfljótinu.  Klukkan 10 verða garðtónleikar Tónlistarfélagsins þar sem Hulda Víðisdóttir mun flytja íslensk sönglög. Tónleikarnir fara fram í garðinum við Gistihúsið á Egilsstöðum.  Klukkan 11 mun sveitarfélagið taka formlega á móti öllum nýjum íbúum í garðinum við gistihúsið.  Íslenskir víkingar mæta á svæðið á hádegi og selja handverk og sýna bardagalistir sínar á tveggja tíma fresti.  Bergur Thorberg sýnir einnig myndir sínar sem hann málar úr kaffi.

60 ára afmæli þéttbýlis á Egilsstöðum er fagnað með tilheyrandi afmælisköku og kaffi, tjaldið verður blómum prýtt og Dúkkulísurnar fagna 25 ára afmæli sínu með útgáfutónleikum ásamt með rokkhnátunum sem verið hafa á námskeiði hjá þeim.  Einnig leikur Vichy Pollard, gestahljómsveit.  Frú Norma kemur með bangsann og hermanninn úr leikritinu Bara í draumi og hjálpa krökkum að finna fjársjóðinn mikla klukkan 16:30 við Hetjuna.
   
Klukkan 18 á laugardeginum hefst síðan hin mikla hreyndýraveisla á Héraði þar sem hreindýr er grillað í tjaldinu.  Hreindýrstarfur er heilgrillaður. 

Á sunnudeginum lýkur síðan herlegheitunum með veiðikeppni í Bessastaðaá klukkan 10 og grilli og ketilkaffi í veislurjóðri Víðivallaskógar klukkan 12.30.  Klukkan 14.00 halda Ljótu Hálfvitarnir stórtónleika á Skriðuklaustri og hátíðinni verður síðan slitið klukkan 17.  Þar með lýkur vel heppnaðri hátíð þar sem Héraðsbúar hafa fagnað saman tímamótum í sögu þéttbýlis hér fyrir austan og skemmt sér saman í tíu daga.