Hvatning um að taka þátt í skoðanakönnun

Takið þátt í skoðanakönnuninni - Viðhorf til sameiningar og / eða samvinnu sveitarfélaga.

Nú hefur verið send út skoðanakönnun til íbúa Fljótsdalshéraðs og ættu allir íbúar 18 ára og eldri að hafa fengið hana senda, ásamt umslagi til að skila svarinu í.

Umslagið má setja ófrímerkt í póst. Hægt er að fara með það á pósthúsið á opnunartíma, eða setja það í póstkassa Íslandspósts bæði í dreifbýli og þéttbýli. Þrír slíkir söfnunarpóstkassar eru í þéttbýlinu á Egilsstöðum og Fellabæ. Einn er á pósthúsinu sjálfu, einn á vesturgafli Miðvangs 2-4 (Kleinunni) og einn á Fellabakaríi. Einnig er tekið við þessum umslögum á bæjarskrifstofunni að Lyngási 12 á opnunartíma og á Bókasafninu frá kl. 14:00 til 19:00.

Skilafrestur er til og með 23. mars.

Íbúar eru hvattir til að taka þátt í skoðanakönnuninni og skila umslaginu á einhvern ofnagreindra staða. Mikilvægt er að viðhorf sem flestra komi fram.

Sama könnun er einnig gerð hjá Djúpavogshreppi, Fljótsdalshreppi Seyðisfjarðarbæ, Borgarfjarðarhreppi og Vopnafjarðarhreppi.