„Höngum saman í sumar“

Margir hafa sjálfsagt veitt athygli gulum, björtum og brosandi sólum sem hengdar hafa verið upp hér og þar á Egilsstöðum og í Fellabæ. Fljótsdalshérað er þátttakandi í SAMAN  hópnum  og  sumarátakinu sem ber yfirskriftina: ,,Höngum saman í sumar!“ Rannsóknir hafa sýnt að samvera foreldra og barna er ein besta forvörnin.  Yfirskriftin ,,að hanga saman“ hefur þá skýrskotun að samveran þarf ekki að kosta neitt, vera skipulögð eða hafa skemmtanagildi. Að verja tíma saman skilar engu að síður árangri. Rannsóknir hafa einnig sýnt að börn og unglingar vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum. Það sama hefur komið fram í máli foreldra sem tekið hafa þátt í könnunum.