Ályktun vegna jarðgangamála

Seyðfirðingar og nærsveitungar á gangagjörningi 29.júní 2013
Seyðfirðingar og nærsveitungar á gangagjörningi 29.júní 2013

Á sameiginlegum fundi bæjarráða Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, sem haldinn var mánudaginn 26. ágúst 2019, voru fulltrúar sveitarfélaganna sammála um að fagna beri því að niðurstaða starfshóps um legu og framkvæmdafyrirkomulag næstu jarðganga á Austurlandi liggi fyrir sem og því að sú niðurstaða skuli vera í fullu samræmi við áherslur sveitarfélaganna á Austurlandi sem ítrekað hafa komið fram í ályktunum aðalfunda samtaka sveitarfélaga á Austurlandi.

Sveitarfélögin vænta þess að við afgreiðslu samgönguáætlunar í haust verði tryggt fjármagn til að hefjast handa við hönnun ganganna strax á næsta ári.

Einnig leggja sveitarfélögin áherslu á mikilvægi þess að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur og að hin svokallaða skoska leið komist til framkvæmda strax í byrjun árs 2020 líkt og kveðið er á um í samgönguáætlun. Slíkt verði til þess fallið að efla landshlutann sem búsetuvalkost m.a. með því að gera íbúum þar fært að sækja nauðsynlega grunn- og sérfræðiþjónustu, sem að stærstum hluta er staðsett á höfuðborgarsvæðinu, án þess að kostnaður við slíkar ferðir verði illviðráðanlegur.