Samstarfssamningur við HÍ samþykktur

Á fundi bæjarráðs í fyrradag var kynntur samstarfssamningur milli Fljótsdalshéraðs og Háskóla Íslands. Samningurinn sem er til fimm ára varðar verkefni á sviði rannsókna og fræða sem unnin verða á Fljótsdalshéraði eða með beinni tengingu við svæðið. Í samningnum stendur m.a. „Samningsaðilar eru sammála um að stefna að því að föst starfsemi á sviði rannsókna og fræða á vegum HÍ verði sett af stað á ný á Fljótsdalshéraði árið 2013“.

Áætlað er að fyrstu tvö ár samningstímans fari í að undirbúa verðandi starfssemi, sem byggð verði á möguleikum sem felast í sérstöðu svæðisins á svið náttúru og samfélags. Stofnaður verði bakhjarlahópur sem leiði hugmyndavinnu og móti fyrirhugaða starfssemi. Gildistími samningsins er frá ársbyrjun 2011 og út árið 2015. Gert er ráð fyrir að samningurinn verði endurskoðaður í byrjun árs 2015. Skrifað var undir samninginn af hálfu bæjarfélagsins þann 20. ágúst og samþykkti bæjarráð samninginn.