Austfirsk útgáfa í öndvegi í Safnahúsinu

Frá bókavökunni í fyrra
Frá bókavökunni í fyrra

Hin árlega bókavaka Safnahússins verður haldin í dag fimmtudaginn 30. nóvember og hefst klukkan 17. Vakan er árlegur viðburður í húsinu og er samstarfsverkefni safnanna þriggja. Hún er haldinn á neðstu hæð – fyrir framan Héraðsskjalsafnið og er auðveldastur aðgangur að neðan, Tjarnarbrautarmeginn.

Á vökunni er austfirsk útgáfa í öndvegi eins og venjan er. Kynntar til leiks bækur gefnar út í fjórðungnum og einnig bækur sem tengjast honum á einhvern hátt.

Eins og síðustu ár er mikil gróska í bókaútgáfu á Austurlandi og því verður fjallað um fjölda bóka á vökunni, ævisögur, fræðibækur og gamanmál. Nefna má að tvö ungskáld af Héraði hafa gefið út bækur á árinu. Þau eru því miður upptekin annars staðar en hæfir fulltrúar þeirra kynna bækurnar. Þá koma fulltrúar bókaútgáfunnar Bókstafs og Félags ljóðaunnenda á Austurlandi og segja frá þeim bókum sem gefnar hafa verið út á þeirra vegum í ár. Vert er að geta þess að nokkrar af bókunum sem kynntar verða hafa bæði verið umbrotnar og prentaðar svæðinu, það er hjá Héraðsprenti.

Bókavakan er öllum opin, hún er gjaldfrjáls og að venju er kaffi á könnunni.