Fara í efni

Viðmiðunarreglur um vetrarþjónustu í Múlaþingi

20.12.2023 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Á síðasta fundi Umhverfis- og framkvæmdaráðs þann 18. desember var framkvæmda- og umhverfismálastjóra falið að láta kynna reglur um vetrarþjónustu á miðlum Múlaþings. Ráðið hvatti íbúa og aðra til þess að koma ábendingum um það sem má betur fara varðandi vetrarþjónustu á framfæri á netfangið mulathing@mulathing.is. Að gefnu tilefni þótti viðeigandi að minna á að kurteisi og vinsemd er mikilvæg í öllum samskiptum, bæði á samfélagsmiðlum og í samskiptum við starfsmenn sveitarfélagsins.

Vetrarþjónusta miðar að því að halda opnum helstu stofn- og tengibrautum, aksturleiðum skólabíla og almenningssamgangna og tryggja aðgengi að neyðarþjónustu eins og kostur er. Reynt er að lágmarka umferð snjómoksturstækja við skólastofnanir á helstu ferðatímum barna til og frá skóla.Verkstjórar þjónustumiðstöðva Múlaþings halda utan um vetrarþjónustu hver í sínum byggðakjarna en yfirumsjón hefur framkvæmda- og umhverfismálastjóri. Starfsmenn þjónustumiðstöðva sinna vetrarþjónustu en jafnframt er leitað til verktaka á hverjum stað og leitast við að semja við aðila í nærsamfélaginu til að spara vegalengdir og tíma.

Sveitarfélagið annast ekki snjóhreinsun:

  • á bílastæðum eða plönum einstaklinga og fyrirtækja.
  • frá sorpílátum og bílskúrum einstaklinga og fyrirtækja.
  • á einkavegum að húsnæði sem skilgreint er sem sumarhús í fasteignaskrá Þjóðskrár.
  • á einkavegum í og að sumarhúsahverfum.
  • þar sem einstaklingur er skráður með lögheimili en hefur ekki fasta búsetu allt árið á staðnum.
  • að einstökum ferðamannastöðum.
  • á hlöðum eða plönum við útihús í dreifbýli.

Hægt er að lesa um viðmiðunarreglur um vetrarþjónustu í Múlaþingi hér:  Viðmiðunarreglur um vetrarþjónustu í Múlaþingi | Múlaþing (mulathing.is).

Viðmiðunarreglur um vetrarþjónustu í Múlaþingi
Getum við bætt efni þessarar síðu?