Fara í efni

Efling útináms í grunnskólum Múlaþings

16.04.2024 Fréttir

Náttúruskólinn, samtök áhugafólks um útinám og útiveru, stendur nú í samstarfi við sveitarfélagið Múlaþing, fyrir örnámskeiðum í útinámi fyrir grunnskólakennara. Ráðgert er að Náttúruskólinn heimsæki á næstunni alla grunnskóla sveitarfélagsins og bjóði uppá hvatningu, spjall, kennslu og hugvekjur um gildi útiveru og -náms og hvernig nýta má útinám í fjölþættum tilgangi inní skólastarfinu.

Náttúruskólinn hefur nú þegar heimsótt Egilsstaðaskóla þar sem boðið var uppá vinnusmiðjur í meðferð elds og útieldun, leikjum og leikjavæðingu námsefnis, hugarstormi um útinám, súrri og skýlagerð og frisbígolfi. Það var mikið líf og fjör á skólalóð Egilsstaðaskóla meðan á námskeiðinu stóð og kennarar spreyttu sig í hinum ýmsu verkefnum.

Sigrún Blöndal deildastjóri 6.-10. bekkjar Egilsstaðaskóla sagði námskeiðið vera mjög gagnlegt fyrir kennara og starfsfólk skólans.

,,Á námskeiðinu fékk fólk hugmyndir að leiðum til að nýta nærumhverfið til upplifunar og náms. Kennarar hafa mikinn áhuga að auka útikennslu og námskeiðið varð mörgum hvatning til þess. Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með starfi Náttúruskólans og nemendur og starfsfólk Egilsstaðaskóla hefur notið þess að taka þátt í dagskrá skólans.“

Náttúruskólinn stóð í fyrravetur fyrir helgarnámskeiðum fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla í Óbyggðasetrinu í Fljótsdal. Það tókst afar vel og í bígerð að endurtaka leikinn þegar um hægist í öðrum verkefnum.

Efling útináms í grunnskólum Múlaþings
Getum við bætt efni þessarar síðu?