Fara í efni

Reglur um skólaakstur í grunnskólum Múlaþings

1. gr. Gildissvið og orðskýringar

Um skólaakstur í Múlaþingi gilda Reglur um skólaakstur í grunnskóla, nr. 656/2009 með síðari breytingum, ásamt sérákvæðum samkvæmt þessum reglum. Reglur þessar taka til skipulags
skólaaksturs milli heimilis og grunnskóla. Með skólaakstri er í reglum þessum átt við akstur á milli heimilis og grunnskóla innan skólahverfis. Heimili í reglum þessum merkir skráð lögheimili nemenda.

Skólahverfi Múlaþings:

  • Egilsstaðaskóli: Fyrrum Egilsstaðabær, fyrrum Eiða- og Hjaltastaðaþinghá og fyrrum Valla- og Skriðdalshreppur.
  • Fellaskóli: Fyrrum Fellahreppur.
  • Brúarásskóli: Fyrrum Norður-Hérað.
  • Seyðisfjarðarskóli: Fyrrum Seyðisfjarðarkaupstaður.
  • Djúpavogsskóli: Fyrrum Djúpavogshreppur.
  • Grunnskóli Borgarfjarðar: Fyrrum Borgarfjarðarhreppur.

2. gr. Ábyrgð

Sveitarfélagið ber ábyrgð á öryggi og velferð nemenda í skólaakstri og að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða um umferðaröryggi.

3. gr. Framkvæmd - akstursáætlun

Daglegur skólaakstur er í samræmi við samninga um skólaakstur sem í gildi eru hverju sinni. Skólastjóri í samvinnu við fræðslustjóra leggur fram áætlun um skólaakstur við upphaf hvers skólaárs
þar sem fram koma upplýsingar um fjölda farþega, akstursleiðir, tímasetningar og fjölda akstursdaga á skólaárinu. Skipulagi skólaaksturs verður að öllu jöfnu ekki breytt innan skólaárs nema til komi
fjölgun/fækkun grunnskólabarna sem nýta skólaakstur. Áætlunina skal kynna skólaráði grunnskólans sbr. 8. gr. laga nr. 91/2008 og skal hún vera aðgengileg íbúum á heimasíðu grunnskólanna.

4. gr. Skipulag skólaaksturs

Skipulag skólaaksturs skal taka mið af kennsluskipan, fjölda nemenda, öryggi þeirra og vegalengd milli skóla og heimilis. Daglegum skólaakstri ber að haga með þeim hætti að nemendum sé ekið heim sem fyrst eftir að skóladegi lýkur. Miða skal við að daglegur heildartími skólaaksturs sé að jafnaði, að meðtöldum biðtíma, ekki lengri en 120 mínútur. Eftir því sem við á skulu foreldrar fylgja börnum sínum að skólabíl og taka á móti þeim eftir skóla.

5. gr. Öryggi farþega

Skólabílstjóri skal sjá til þess að nemendur séu í öryggisbeltum og skal ekki leggja af stað fyrr en öll öryggisatriði hafa verið uppfyllt. Skólabílstjóri í samráði við skólastjóra leggur mat á hvort aðstæður séu með þeim hætti, t.d. vegna veðráttu eða ófærðar, að breyta þurfi út frá fyrirliggjandi áætlun um daglegan skólaakstur. Skólastjóri upplýsir hlutaðeigandi aðila. Skólastjóri metur hvort þörf sé á gæslumanni í skólabíl með hliðsjón af öryggi, fjölda, aldri nemenda og samsetning, vegalengd og öðrum aðstæðum. Skólabílstjóra ber að sýna sérstaka aðgát áður en nemendum er hleypt út úr skólabíl og forðast að bakka á skólalóð. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum nr. 348/2007 er leyfilegt í hópbifreið að nota þann öryggis- og
verndarbúnað fyrir börn sem er til staðar í bifreiðinni. Foreldrar geta óskað eftir að nota bílstól barns síns í skólabíl ef hægt er að koma því við, í samráði við skólabílstjóra.

6. gr. Búnaður og öryggi skólabíla og skólabílstjóra

Bíll sem notuð er í skólaakstri skal uppfylla skilyrði til aksturs með grunnskólabörn samkvæmt lögum þar um, reglugerðum og settum reglum um öryggi farþega, gerð, búnað og notkun öryggis- og
verndarbúnaðar og merkingu bíla sem í gildi eru á hverjum tíma. Í bílum sem notaðar eru í skólaakstri skal vera farsími og hæfilegt hitastig fyrir farþega.

Bílstjórar skólabíla skulu hafa aukin ökuréttindi og hafa sótt skyndihjálparnámskeið og önnur þau námskeið sem sérstaklega eru ætluð bílstjórum fólksflutningabíla. Óheimilt er að ráða bílstjóra til
skólaaksturs eða gæslumann í skólabíl sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga og skal liggja fyrir sakavottorð. Komi upp vandamál í skólabíl, svo sem
vanlíðan, einelti eða stríðni, eða verði bílstjóri var við að eitthvert barn eigi í erfiðleikum ber honum að ræða það við skólastjóra og/eða foreldra. Ákvæði um þagnarskyldu starfsfólks skóla og
tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda taka til bílstjóra skólabíls þó hann sé ekki starfsmaður sveitarfélagsins. Skylt er að upplýsa skólastjóra, með hæfilegum fyrirvara, ef skipt er um
skólabílstjóra.

7. gr. Farþegar - foreldrar

Skólareglur, skv. 30. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, eiga við um framkomu og háttsemi nemenda í skólaakstri. Fara skal með brot á skólareglum skv. 14. gr. sömu laga. Foreldrum er skylt að
láta skólabílstjóra vita tímanlega ef nemandi forfallast og þarf ekki á skólaakstri að halda. Ef foreldri vill senda barn sitt með skólabíl, sem aukafarþega, skal fá samþykki skólabílstjóra fyrir því með
góðum fyrirvara. Heimilt er að starfsfólk viðkomandi skóla og börn yngri en 18 ára, geti nýtt sér ferð í skólabíl. Þetta á við ef dagleg akstursleið lengist ekki, pláss er í bílnum og að fengnu samþykki
skólabílstjóra. Skólabílstjóra er ekki skylt að taka aukabúnað með í skólabílinn.

8. gr. Leikskólabörn

Skólabílstjóra er heimilt að flytja leikskólabörn. Þetta á við ef dagleg akstursleið lengist ekki og pláss er í bílnum. Foreldrar leikskólabarna skulu óska eftir þjónustunni til viðkomandi bílstjóra fyrir 15.
ágúst vegna komandi vetrar. Börnin skulu sitja í viðurkenndum bílstólum sem foreldrar útvega og bera kostnað af. Bílstjórar skólabíla bera ábyrgð á að fylgja leikskólabörnunum til leikskólastarfsfólks
og að þau séu sótt síðdegis.

9. gr. Meðferð ágreiningsmála

Telji foreldri nemanda einhverju áfátt í fyrirkomulagi skólaaksturs eða að á rétti barns sé brotið getur það leitað leiðréttingar hjá skólastjóra, fræðslustjóra eða fjölskylduráði Múlaþings.

10. gr. Gildistaka

Viðmiðunarreglur þessar taka gildi 1. ágúst 2023 eftir staðfestingu sveitarstjórnar Múlaþings og skulu þær vera aðgengilegar á vef sveitarfélagsins og endurskoðaðar eigi sjaldnar en fimm ára fresti.

Samþykkt af sveitarstjórn Múlaþings 10. maí 2023

Síðast uppfært 24. júlí 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?