Símalausir dagar í Fellaskóla

Aðstoðarskólastjórinn leggur líka frá sér símann
Aðstoðarskólastjórinn leggur líka frá sér símann

   Dagarnir 31. október til 3. nóvember 2017 eru símalausir dagar í Fellaskóla. Hugmyndin er að kanna kosti og galla símanotkunar í skólastarfinu, svo ákvörðun um fyrirkomulag símamála verði eins markviss og hægt er þegar þar að kemur.

Þessa daga eru nemendur beðnir að skilja símana eftir heima en til vara er hægt að skilja símana eftir hjá skólastjóra, í sérstökum öskjum sem merktar eru viðkomandi bekk.

Á foreldradegi í síðustu viku voru foreldrar nemenda Fellaskóla beðnir um að svara stuttri könnun og koma þannig sínum skoðunum á símalausum degi á framfæri. Vonast starfsfólk Fellaskóla eftir því að nemendur og foreldrar verði jákvæðir fyrir þessari tilraun.

Mikið hefur verið rætt og ritað um snjallsíma í skólastarfi upp á síðkastið og verður því forvitnilegt að vita hvernig símalausir dagar í skólanum ganga og hver niðurstaða tilraunarinnar verður.