Fyrsta lýðheilsugangan sló í gegn

Um 30 manns tók þátt í fyrstu lýðheilsugöngunni á Héraði en farið var í Taglarétt.
Um 30 manns tók þátt í fyrstu lýðheilsugöngunni á Héraði en farið var í Taglarétt.

Fjölmennt var í fjölskyldugöngu í gær, miðvikudaginn 6. september, sem gengin var á vegum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Var gengið í Taglarétt og mættu í kringum 30 manns í gönguna, sem hlýtur að vera heimsmet miðað við höfðatölu.

Gangan var partur af afmælisdagskrá Ferðafélags Íslands og heyrir undir verkefnið Lýðheilsugöngur FÍ. Á dagskrá eru fjórar göngur í september, en gengið er kl.18:00 alla miðvikudaga í mánuðinum, og er mæting í göngurnar við skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8.

Næsta ganga verður söguganga um Egilsstaði, en þá er ætlunin að kynnast nærumhverfinu, fræðast og ganga um bæinn okkar.

Mælst er til þess að áhugasamir skrái sig á heimasíðu FÍ, bæði til að sýna hversu duglegir Héraðsbúar eru að ganga en eins til að komast í verðlaunapott sem dregið verður úr í lok verkefnisins.