Fara í efni

Samþykkt fyrir byggðasamlagið Ársalir bs.

 Pdf útgáfa af samþykktinni

1.gr. Heiti

Félagið er byggðasamlag og er nafn þess Ársalir bs. (hér eftir samlagið).

2. gr. Heimilisfang

Heimilisfang Ársala er að Lyngási 12, 700 Egilsstöðum og er starfssvæði þess Austurland.

3. gr. Tilgangur

Tilgangur samlagsins er að byggja, kaupa, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis til lengri tíma til íbúa 60 ára og eldri á starfssvæði samlagsins og annarsstaðar eftir ákvörðun samlagsins. Samlagið er ekki rekið í hagnaðarskyni og eðlilegan rekstrarafgang skal nota til vaxtar eða viðhalds samlagsins eða til niðurgreiðslu lána. Arður eða arðsígildi verða ekki greidd til stofnenda samlagsins eða annarra.
Viðskipti með eignir samlagsins fari fram á markaðsvirði.

4. gr. Skattskylda

Samlagið er ósjálfstæður skattaðili.

5.gr. Stofnendur og stofnfé

Stofnendur samlagsins, sem jafnframt eru aðildarsveitarfélög þess, eru sveitarfélögin Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshérað og Fljótsdalshreppur og eiga þau aðild að samlaginu.

Stofnendur Ársala hafa lagt Ársölum til eignir í eftirfarandi hlutföllum:

Nafn  Hlutfall
Múlaþing  94,1%
Fljótsdalshreppur  5,9%
Samtals  100%

 

Aðildarfélög samlagsins bera einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum samlagsins en innbyrðis skiptist ábyrgðin í samræmi við ofangreind eignarhlutföll.

Engin félagsgjöld eru í samlaginu umfram ofangreint stofnfé, nema ákvörðun um annað sé tekin á aðalfundi samlagsins.

Samlagið fjármagnar sig með rekstri leiguhúsnæðis sbr. 3. gr. Húsaleigusamningar samlagsins eru ótímabundnir nema aðstæður mæli með öðru. Leigufjárhæð skal ákveðin af stjórn með hliðsjón af kostnaði við öflun og viðhald húsnæðis.

6. gr. Stjórn

Stjórn samlagsins skal skipuð þremur mönnum og a.m.k. einum varamanni. Múlaþing skipar tvo aðalmenn og Fljótsdalshreppur skipar einn aðalmann. Varamenn eru kosnir sérstaklega og geta verið frá hvoru aðildarsveitarfélaganna sem er. Stjórnin skal kosin á aukaaðalfundi, sem haldinn er sama ár og sveitarstjórnarkosningar, sbr. 8. gr. samþykktar þessarar, til fjögurra ára.

Stjórnin sjálf skiptir með sér verkum. Stjórnin stýrir öllum málefnum félagsins og kemur fram út á við fyrir þess hönd. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi þess sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda samlagið. Stjórn samlagsins getur veitt prókúruumboð fyrir samlagið. Umboð stjórnar samlagsins til ákvarðanatöku takmarkast aðeins af samningi þessum sem og þeim lögum sem um rekstur þess gilda hverju sinni, s.s. sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 og ákvæði þeirra um fjármál sveitarfélaga. Aðeins er þörf á staðfestingu aðildarsveitarfélaga á ákvörðun stjórnar samlagsins sé um meiriháttar ákvarðanir um fjárhagsmálefni að ræða eða breytingar á rekstri þess.

Stjórnarmenn og starfsmenn samlagsins skulu árlega, á aðalfundi samlagsins, gera grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum og trúnaðarstörfum utan samlagsins.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Sama rétt á framkvæmdastjóri. Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundagerðarbók um það sem gerist á stjórnarfundum.

7. gr. Framkvæmdastjóri

Stjórn samlagsins ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans. Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri samlagsins og kemur fram fyrir hönd þess í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Framkvæmdastjóri á rétt til setu á stjórnarfundum þótt hann sé ekki stjórnarmaður. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur félagsins, sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

8. gr. Fundir

Aðalfundur samlagsins skal haldinn fyrir lok mars ár hvert og fer hann með æðsta vald í málefnum samlagsins, en það ár sem sveitarstjórnarkosningar eru skal halda aukaaðalfund samkvæmt ákvörðun stjórnar þar sem stjórn samlagsins er kosin sbr. 6. gr. samþykktar þessarar. Aukafundi skal hald eftir þörfum. Aukafundi samlagsins skal jafnframt halda ef einn stjórnarmaður eða þriðjungur þeirra sem rétt eiga til fundarsetu óskar þess og skulu þeir boðaðir með dagskrá með a.m.k. viku fyrirvara.

Til fundarins skal boðað bréflega eða á annan sannanlegan hátt með einnar viku fyrirvara. Aðildarsveitarfélög samlagsins senda fulltrúa á aðalfund og aukafundi auk þess sem stjórn og framkvæmdastjóri hafa rétt til fundasetu. Atkvæðavægi aðildarsveitarfélags ræðst af eignarhlut þeirra í samlaginu.

Á dagskrá aðalfundar skulu a.m.k. vera eftirfarandi liðir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar og afgreiðsla ársreiknings.
  3. Kosning stjórnarmanna, ef við á, og ákvörðun um laun stjórnar.
  4. Ákvörðun um breytingu á samþykktum samlagsins, ef tillaga um það hefur komið fram með löglegum fyrirvara.
  5. Önnur mál.

Afl atkvæða ræður úrslitum á aðal- og aukafundum samlagsins nema kveðið sé á um annað í lögum eða samningi þessum. Samþykktum samlagsins verður þó aðeins breytt á aðalfundi með samþykki 2/3 hluta atkvæðamagns á fundi. Tillögur um breytingar á samþykktum samlagsins skulu berast stjórn þess í síðasta lagi þremur sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar. Tillöguflytjandi skal jafnframt kynna öllum aðildarsveitarfélögunum tillöguna bréflega með sama fyrirvara.

10. gr. Endurskoðun

Reikningar samlagsins skulu vera áritaðir og endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Stjórn samlagsins skal velja löggiltan endurskoðanda (eða endurskoðendafélag) til að endurskoða reikninga samlagsins fyrir hvert starfsár. Endurskoðandann má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna samlagsins. Ársreikningur skal svo lagður fyrir aðalfund til samþykktar eða synjunar.

11. gr. Reikningsárið

Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt hann fyrir endurskoðendur eigi síðar en 1. mars ár hvert.

12. gr. Slit, sameining og úrsögn

Til að slíta samlaginu getur annað hvort aðildarsveitarfélagið gert slíkt með því að senda tilkynningu með sannanlegum hætti á hitt aðildarsveitarfélagið. Skal það gert með lámarki 6 mánaða fyrirvara fyrir lok árs og miðast þá slit við komandi áramót. Sé fyrirvarinn skemmri miðast slit við þarnæstu áramót.

Til að sameina samlaginu öðru samlagi þarf samþykki beggja aðildarsveitarfélaga á löglega boðuðum fundi. Við slit samlagsins, eftir að kröfur hafa verið greiddar, skal eftirstöðvum eigna eða skulda þess jafnað á aðildarsveitarfélög samlagsins í samræmi við tilgreinda eignarhluti þess í 5. gr. samþykktanna.

13. gr. Endurskoðun samnings

Samning þennan skal endurskoða á fjögurra ára fresti.

 

Samþykkt á fundi á Egilsstöðum, dags. 22. Júní 2022
Breytingar á 5.gr. samþykktar af sveitarstjórn Fljótsdalshrepps 2 maí 2023 og 10. maí 2023 í sveitarstjórn Múlaþings.

Síðast uppfært 16. október 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?