Fara í efni

Náttúruvernd

Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki í umhverfis- og náttúruvernd. Þau sinna lögbundnum þáttum eins og umhverfiseftirliti og -vöktun, þ.m.t. vöktun loftgæða og neysluvatns. Með skipulagsvinnu sinni hafa sveitarfélög áhrif á landslagsbreytingar, verndun svæða og viðkvæmrar náttúru. Þegar kemur að hnattrænum umhverfisvandamálum, svo sem loftlagsbreytingum og útrýmingu dýra og plantna munu sveitarfélög gegna æ mikilvægara hlutverki.

Fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi hefur stóraukið áherslu á náttúruvernd með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu, sbr. setningu laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða nr. 75/2011 og laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegra minja nr. 20/2016. 

Sveitarstjórnir kjósa náttúruverndarnefndir, í samræmi við 14 gr. laga um náttúrvernd nr. 60/2013. Náttúruverndarnefndir skulu vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Skulu þær stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líklegt er að hafi áhrif á náttúruna, og gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar. Sveitarfélög hafa aðkomu að friðlýsingu landssvæða og geta stofnað fólkvanga og útvistarsvæði fyrir almenning.

Í sveitarfélögum skal vera starfandi þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd samkvæmt lögum um náttúruvernd. Hlutverk náttúruverndarnefnda er að stuðla að náttúruvernd á sínu svæði. Þær skulu hafa forgöngu um það að vekja almennan skilning á gildi náttúruverndar og óspillts umhverfis. Náttúruverndarnefndir skulu fylgjast með því, að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum sem brjóta í bág við ákvæði og fyrirmæli laga. 

 

Síðast uppfært 14. september 2020
Getum við bætt efni þessarar síðu?