Fara í efni

Reglur um afnot fasteigna Múlaþings, annarra en íbúðahúsnæðis

1. gr. Markmið

Markmið með reglum þessum er að stuðla að því að nýting fasteigna sveitarfélagsins þjóni hagsmunum þess og íbúa um tiltækt húsnæði, s.s. vegna starfsemi á sviði menningar-, samfélagsog atvinnumála, og að slík nýting hafi ekki skaðleg áhrif á samkeppni og samræmist almennri notkun fasteignanna og fjárhagslegum markmiðum með rekstri þeirra.

2. gr. Gildissvið

Reglur þessar gilda um fasteignir í eigu og umsjón sveitarfélagsins aðrar en íbúðarhúsnæði, þegar notkun þeirra fellur utan venjubundinnar notkunar þeirra, s.s. þegar fasteign er notuð vegna einstakra viðburða. Gildissvið reglnanna tekur því mið af lögákveðnum eða almennt viðurkenndum verkefnum sveitarfélaga, m.a. til:

  • að reka húsnæði til grunn- og leikskólastarfs og fræðslumála
  • að tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi
  • aðkomu að rekstri félagsheimila
  • að reka íþróttamannvirki og ýmis konar starfsemi vegna skipulags íþróttastarfs
  • að reka mannvirki í þágu ýmis konar menningarstarfsemi

3. gr.

Ef til stendur að leigja fasteign út til lengri tíma skal hún almennt auglýst til leigu, með almennum hætti.

4. gr. Gjaldtaka

Á grundvelli reglna þessara skal sett gjaldskrá um notkun einstakra fasteigna sveitarfélagsins.

Gjaldtaka skal almennt fara fram þegar notkun fasteignar fellur utan við venjubundna notkun hennar á vegum sveitarfélagsins.

Almennt gildir að mötuneytiseldhús eru að jafnaði ekki leigð út til matreiðslu vegna viðburða í húsnæðinu. Engin þjónusta, kaffi, dúkar eða annað er innifalið í leigugjaldi. Ef leikin er tónlist á viðburðum er vakin athygli á að gera þarf sérstök skil á stefgjöldum sem ekki eru
innifalin í leigu. Húsnæði er afhent hreint og skal skilað hreinu. Þrif eru hvergi innifalin í leiguverði, nema um annað sé samið.

Vilji sveitarfélag styrkja viðburði, s.s. á sviði íþrótta, fræðslu, menningar-, félags- og samfélagsstarfsemi, getur umsjónaraðili, í samráði við viðkomandi sviðsstjóra, vikið frá gjaldskrá. Viðkomandi fagnefndir sveitarfélagsins setji verklagsreglur um slík frávik.

5. gr. Umsjón og ábyrgð

Umsjónarmaður fasteignar, húsráð eða annar aðili sem hefur umsjón með daglegum rekstri fasteignar ber á byrgð á framkvæmd reglna þessara.

Ábyrgð á samræmdri framkvæmd reglnanna hafa viðkomandi sviðsstjórar.

Sveitarfélagið getur gert samning við aðila um umsjón og rekstur húsnæðis.

6. gr. Um notkun húsnæðis

Um einstakar fasteignir skal liggja fyrir hvort heimilt sé að nýta þær til annarra nota en tengjast venjubundinni nýtingu þeirra. Ekki skal hvatt til nýtingar fasteigna til annarra nota en þeirra sem venjubundin er, nema slík ákvörðun sé sérstaklega ákveðin með hliðsjón af rekstrarþáttum fasteignar.

Eðlilegt er að komið verði til móts við óskir um nýtingu fasteigna sveitarfélagsins til að efla og auka fjölbreytileika samfélagsins, s.s. með mannfögnuðum, fundum og öðrum viðburðum, eins og venja er til, þ.m.t. venja um nýtingu húsnæðisins af nærsamfélagi þess.

7. gr.

Þegar óskað er eftir að nýta fasteign sveitarfélagsins til einstakra viðburða, verður umsjónarmaður að hafa í huga að ráðstöfun fasteigna getur falið í sér skaðleg áhrif á samkeppni, sérstaklega ef hún er endurgjaldslaus.

Til viðmiðunar um slík atriði skal litið til þess hvert er eðli þess viðburðar sem óskað er eftir að nýta húsnæði í, s.s.

  • Fellur viðburðurinn undir starfsemi sem sveitarfélag er að styðja við í heild eða hluta, sbr. 2. gr.
  • Fer viðburður fram í ágóðaskyni.
  • Er viðburður tengdur nærsamfélagi viðkomandi fasteignar og þar með bundinn við það svæði.
  • Felur viðburður í sér sambærilega þjónustu og einkaaðilar eru að veita, t.d. ef gerð er krafa um aðgang að eldhúsi og til stendur að selja veitingar eða ef veitingar eru stór hluti af viðburði.

Sérstaklega verði litið til þess hvort aðgangur að húsnæði sveitarfélagsins geti komið í stað aðgangs að húsnæði og þjónustu sem einkaaðilar reka. Við það mat verði m.a. litið til:

  • Stærðar og gerðar húsnæðis, m.v. annað húsnæði.
  • Staðsetningar húsnæðis og hvort hún skipti máli vegna viðburðar.
  • Hvort annað húsnæði sé yfirleitt tiltækt á þeim tíma sem viðburður stendur yfir.

Eingöngu er heimilt að nota fasteignir sveitarfélagsins til gistingar, samkvæmt reglum þessum, þegar um er að ræða hópgistingu barna og ungmenna í fylgd og á ábyrgð fullorðinna, t.d. vegna æskulýðsstarfs, skóla- og íþróttamóta. Farið skal eftir þeim reglum sem gilda í viðkomandi stofnunum s.s. varðandi ofnæmi og áfengis- og vímuefnanotkun.

Gjaldtaka skal fara fram sbr. 4. gr. Leigutekjur vegna afnota af húsnæði sveitarfélagsins skulu innheimtar hjá innheimtufulltrúa sveitarfélagsins en leigutekjur skulu renna til viðkomandi stofnunar til að vega upp á móti kostnaði við útleigu. 

Samþykkt í byggðaráði Múlaþings 22. nóvember 2022

Síðast uppfært 03. apríl 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?