Fara í efni

Matur tengir fólk saman

19.03.2024 Fréttir

Viðburðurinn Connected by food! verður haldinn í Sláturhúsinu á Egilsstöðum þann 23. mars næstkomandi og er styrktur með menningarstyrk Múlaþings.

Connected by food! er viðburður þar sem fólk frá ólíkum löndum hittist og kemur með sérrétti frá sínu heimalandi. Það er frítt á viðburðinn og öllum er velkomið að koma og fá smakk af þeim fjölmörgu réttum sem verða í boði eða að koma með mat og deila sinni matarmenningu.

Hugmyndin að viðburðinum kviknaði eftir að Daria Magurean hafði sótt álíka viðburð árið 2017. Nýflutt til landsins ákvað hún að skella sér á viðburð þar sem fólki var boðið að koma og smakka mat frá ólíkum löndum. Sjálf kom hún með moldavískan mat og skemmti sér mjög vel.

,,Ég smakkaði dýrindis rétti og hitti fólk sem síðan urðu vinir okkar. Þetta var mikilvægt fyrir okkur þar sem við vorum nýflutt til Íslands.“

Eftir að Daria sótti viðburðinn varð það draumur hennar að halda svipaðan viðburð en lét loksins verða af því eftir að hún ræddi hugmyndina við Tess Rivarola sem sagði hugmyndina frábæra og hvatti hana til að sækja um styrk hjá Múlaþingi. Hún gerði það og nú standa þær saman að Connected by food!

Markmið viðburðarins er að tengja fólk saman í gegnum mat.

,,Ég trúi því að fólk elski að elda sinn hefðbundna mat og njóta hans með vinum og fjölskyldu. Connected by food! tekur þá hugmynd lengra og tengir sama ólíka matarmenningu á einum stað þar sem fólk deilir mat með hvort öðru sem og gestum og gangandi. Þannig getur fólk komið saman, spjallað og kynnst. Viðburðurinn býr líka til notalegan vettvang fyrir þau sem eru nýflutt á svæðið til að tengjast íbúum en er einnig frábær vettvangur fyrir Íslendinga til að kynna sér ólíka matarmenningu, hitta fólk frá öðrum stöðum í heiminum og skapa sterkt samfélag!“

Sláturhúsið styður við framtakið með því að bjóða upp á aðstöðu fyrir fólk til að koma saman á.

Charles Ross ætlar að spila tónlist fyrir gesti og gangandi.

,,Við erum heppin að hafa margt æðislegt fólk í kringum okkur sem er tilbúið að taka þátt með því að elda mat, spila tónlist, deila hugmyndum og leggja sitt af mörkum svo að af þessu megi verða. Við höfum orðið vör við mikla jákvæðni á meðan undirbúningi hefur staðið og við erum spennt að hitta alla á laugardaginn!“ Segir Daria sem hefur ekki setið auðum höndum í undirbúningi viðburðarins.

Múlaþing hvetur öll til að gera sér glaðan dag á laugardaginn og skella sér í Sláturhúsið og bragða á ljúffengum réttum við notalega tónlist og í góðum félagsskap!

Mynd: Daria Magurean skipuleggjandi Connected by food!

Matur tengir fólk saman
Getum við bætt efni þessarar síðu?