Líða fer að jólum í Safnahúsinu

Þegar aðventan gengur í garð er Safnahúsið klætt í jólabúninginn og starfsfólkið byrjar að telja niður til jóla. Fimmtudaginn 5. desember bjóða Minjasafnið og Bókasafnið til notalegrar fjölskyldusamveru frá 16:00-18:00.

Á Minjasafninu geta gestir prófað að steypa tólgarkerti undir handleiðslu Guðrúnar Sigurðardóttur. Einnig verður hægt að læðast um sýningarsalinn í litlum jólaratleik, dunda sér við margvíslega jólalega afþreyingu, skoða jólatré fyrri tíma og kynna sér jóladagatal Minjasafnsins.

 Á Bókasafninu svigna hillurnar undan nýjum bókum sem jólabókaflóðið hefur skolað upp á strendur safnsins. Gestir geta líka sest niður og föndrað jólaskraut úr bókum og öðrum hefðbundnari hráefnum.

 Allar sýningar opnar. Síðustu forvöð að skoða sýninguna Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld.

 Ókeypis aðgangur. Tilvalið fyrir fjölskyldur að líta við á þeim tíma sem þeim hentar og eiga notalega stund í friði fyrir jólaösinni.