Upplýsingar vegna Covid-19

Starfsfólk sveitarfélagsins hefur unnið að því undanfarna daga að laga starfsemi stofnana sveitarfélagsins að þeim áætlunum og tilmælum sem gefin hafa verið út vegna Covid 19 faraldursins, oft með stuttum fyrirvara. Ljóst er að starfsemi og þjónusta sveitarfélagsins verður með breyttu sniði næstu vikurnar. Hér á eftir er samantekt á þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til á vegum sveitarfélagsins. Rétt er að árétta að þær aðgerðir sem hér koma fram verða endurskoðaðar þegar tilefni er til eða þörf krefur.

Skrifstofa sveitarfélagsins

Í ljósi neyðarstigs almannavarna vegna COVID-19 verður afgreiðsla skrifstofu sveitarfélagsins lokuð frá og með mánudeginum 23. mars. Ekki verður því lengur hægt að mæta á skrifstofuna til að sinna erindum. Starfsfólk mun jafnframt eftir aðstæðum vinna heima fyrir til að draga úr líkum á smiti milli fólks. Þeir sem eiga erindi við starfsfólk skrifstofunnar er bent á að hringja í síma 4700700 á hefðbundum opnunartíma, milli klukkan 8:00 og 15:45 eða senda tölvupóst á netfangið egilsstadir@egilsstadir.is

Varði málefnið sérstaklega eftirfarandi málaflokka er einnig hægt að hringja í eftirfarandi númer:

 • Vegna fræðslumála sími 4 700 716
 • Vegna launamála sími 4 700 708 og 4 700 740
 • Vegna íþrótta- og tómstundamála sími 4 700 719

Til að senda tölvupóst á einstaka starfsmenn skrifstofunnar er bent á netfangalista á heimasíðu sveitarfélagsins.

Íbúar sveitarfélagsins eru beðnir um að sýna þessum aðgerðum skilning. Með þessu móti er vonast til að hægt verði að halda úti eins góðri þjónustu og mögulegt er við þessar áðstæður.

Fundir nefnda og ráða

Í ljósi þeirra aðstæðna er upp eru komnar hefur verið ákveðið að fundir nefnda og ráða fari fram með fjarfundaformi. Þetta er í samræmi við lög sem Alþingi samþykkti 17. mars um breytingar á sveitarstjórnarlögum sem ætlað er að skapa sveitarfélögum svigrúm til að bregðast við neyðarástandi og tryggja að sveitarstjórnir verði starfhæfar. Þannig verður hver nefndarmaður við sína tölvu. Verði ekki hjá snertifundi komist þá fara slíkir fundir fram í Samfélagssmiðjunni en ekki í fundaraðstöðu í Lyngási 12.

Viðbragðsáætlun Fljótsdalshéraðs

Föstudaginn 13. mars tók gildi Viðbragðsáætlun Fljótsdalshéraðs við heimsfaraldri Covid 19. Hún er miðuð við stofnanir sveitarfélagsins og má finna hana hér. Áætluninni er ætlað á að þjóna þeim tilgangi að vera stjórnendum sveitarfélagsins til stuðnings um hvernig takast eigi á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum. Viðbragðsáætluninni er ætlað að segja fyrir um viðbrögð innan sveitarfélagsins í kjölfar heimsútbreiðslu inflúensu eins og Covid 19.

Félagsþjónustan

Frá og með fimmtudeginum 19. mars mun hluti starfsfólks félagsþjónustunnar vinna eins mikið heiman frá sér og því er unnt. Notast verður við fjarfundalausnir í auknum mæli og rætt við fólk í síma eða með fjarfundarbúnaði, í stað hefðbundinna funda þegar því verður við komið. Meðferðarfundir verða um óákveðinn tíma í fjarfundi. Teymi Austurlandslíkansins verður ekki með viðveru í skólum og öllum fundum þar frestað nema málefni barna þar teljist svo mikilvæg að halda áfram vinnslu í teymi. Fundir verða þá í gegnum fjarfundabúnað.

Hlymsdalir og Stólpi

Félagsstarfi aldraðra hefur verið lokað og óviðkomandi bannaður aðgangur í Hlymsdali sem og í Stólpa. Dagdvöl aldraðra og Stólpa er haldið opnum a.m.k. þar til staðfest smit greinist í fjórðungnum. Þegar og ef kemur til þess verður starfsemin endurskoðuð. Komi til lokunar þessara starfstöðva mun starfsfólk þar fara í þjónustu á heimilum skjólstæðinga sinna. Ásheimar verða að sama skapi opnir þar til smit greinist í fjórðungnum.

Grunnskólar

 • Skólum hefur verið skipt upp í sóttvarnahólf og samgangur þeirra á milli er ekki leyfður, hvorki fyrir nemendur né kennara. Vel er gætt að hreinlæti.
 • Gætt er að því að hópar blandist ekki saman í útivist og að fjarlægð í skólabílum milli óskyldra nemenda sé eins mikil og hægt er.
 • Mötuneyti eru lokuð og lýkur skólahaldi í síðasta lagi klukkan 12:00. Verk- og listgreinakennsla sem og hefðbundin sund- og íþróttakennsla leggst af í bili. Í einhverjum tilfellum verður eldri nemendum kennt í fjarkennslu.
 • Gæsla/frístund fellur niður í bili nema fyrir börn starfsfólks í skilgreindum forgangshópum.
 • Foreldrar og aðrir gestir mega ekki koma inn í skólabyggingar.
 • Strætó kemur til með að ganga eins og venjulega með eftirfarandi viðbótum fyrir nemendur Egilsstaðaskóla:
 1.  Þegar strætó kemur að Íþróttamiðstöð kl. 8:39 fer hann aftur inn að grafreit leggur af stað þaðan klukkan 8:55 kemur við á öllum stoppistöðvum á Egilsstöðum og ætti að vera kominn að íþróttamiðstöðina um kl.ukkan 9:05.
 2. 11:35 brottför frá íþróttamiðstöð og ekið út Tjarnarbraut, Truntubakka, Árskóga, upp í Selbrekku, niður Fagradalsbraut inn að grafreit, út Kaupvang að Landsbanka og þaðan beint í íþróttamiðstöð. Eknir þrír hringir og reiknað með að fara frá íþróttamiðstöð í síðasta hringinn um klukkan 12:15.
 •  Strætó kemur til með að ganga eins og venjulega með eftirfarandi viðbótum fyrir nemendur Fellaskóla:

Í ferðinni sem kemur að Fellaskóla klukkan 8:50 fara nemendur Fellaskóla í bíl merktan Fellaskóla.
Auka ferð verður frá Fellaskóla klukkan 12:10 og Hlynur mun sjá til þess að nemendur komist á réttar stöðvar.

Leikskólar

 • Leikskólar eru opnir en foreldrar mega ekki koma inn í byggingar heldur taka starfsmenn á móti börnum við komuna.
 • Börnum og starfsfólki er skipt í minni hópa eftir því sem aðstæður leyfa og vel er gætt að hreinlæti.
 • Fjöldatakmarkanir eru mismunandi eftir deildum vegna húsakosts en fjöldi barna er takmarkaður í öllum tilfellum.

Tónlistarskólar

 • Tónlistarskólarnir verða opnir með verulegum takmörkunum, sér í lagi í hópkennslu. Fjarkennsla verður efld þar sem það á við.
 • Nemendur eiga að nota eigin hljóðfæri sé þess nokkur kostur og verður rík áhersla lögð á hreinlæti. 

Bókasafn Héraðsbúa

Bókasafn Héraðsbúa verður lokað frá og með 24. mars um óákveðinn tíma. Hægt er að ná sambandi við starfsmenn í síma 4700745 á milli klukkan 14 og 16 virka daga, á Facebooksíðu bókasafnsins  eða í tölvupósti bokasafn@egilsstadir.is . Breytt 31.mars 2020.

Félagsmiðstöðin Nýung

Lokað er í félagsmiðstöðinni Nýung á meðan á samkomubanni stendur. Fyrir unglingastig er haldið úti “rafrænni félagsmiðstöð” þar sem viðvera starfsfólks á Instagram verður mikil (nyung.felagsmidstod). Einnig er hægt að hafa samband við starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar fyrir spjall, viðtöl, heimanámsaðstoð og slíkt og er reynt að sinna öllum unglingum sem vilja þjónustu.

Íþróttamiðstöðin á Egilsstöðum og íþróttahús í Fellabæ

Lokað er í sundlaug, Héraðsþrek og alla íþróttasali á Fljótsdalshéraði. . Bent er á að fylgjast með Facebook síðu Íþróttamiðstöðvarinnar þar sem helstu upplýsingar eru settar inn reglulega. 

Skíðasvæðið í Stafdal

Lokað er á Skíðasvæðinu í Stafdal.

Íþróttastarf og starfsemi íþróttafélaga

Allt íþróttastarf liggur niðri en fólk er hvatt til að fylgjast með heimasíðum og Facebook síðum íþróttafélaga til að fá upplýsingar. 

Hitaveita Egilsstaða og Fella

Starfsemi Hitaveitu Egilsstaða og Fella flokkast með mikilvægum innviðum samfélagsins. Því hefur verið gripið til þess að loka móttöku skrifstofunnar, Einhleypingi 1, Fellabæ. HEF hefur dreift starfsfólki sínu á 4 starfsstöðvar til að takmarka nánd starfsfólks eins og mögulegt er, án þess að þjónusta og afhendingaröryggi skerðist.
Viðskiptavinum er bent á að hafa samband í síma 4 700 780, eða senda tölvupóst á netfangið hef@hef.is á meðan ósköpin ganga yfir. Upplýsingar verða uppfærðar á heimasíðu veitunnar.

Strætó

Ekið verður áfram samkvæmt gildandi tímatöflu milli Fellabæjar og Egilsstaða. Farþegum er nú eingöngu hleypt að aftan í vagninn.


Á þessari síðu á heimasíðu Fljótsdalshéraðs má finna ýmsar upplýsingar er varða Covid 19 veiruna og aðgerðir tengdar henni.