Íþrótta- og tómstundanefnd

38. fundur 24. janúar 2018 kl. 17:00 - 18:30 á bæjarskrifstofu á Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Adda Birna Hjálmarsdóttir formaður
  • Jóhann Gísli Jóhannsson varaformaður
  • Guðmundur Björnsson Hafþórsson aðalmaður
  • Þórunn Bylgja Borgþórsdóttir starfsmaður
Fundargerð ritaði: Bylgja Borgþórsdóttir verkefnastjóri íþrótta- tómstunda- og forvarnarmála

1.Samningar við íþróttafélög

201712120

Íþrótta- og tómstundanefnd leggur til fyrirliggjandi drög að samningum við eftirfarandi íþróttafélög verði endurnýjaðir:
Ungmennafélagið Þrist, Skíðafélagið í Stafdal, Flugklúbb Egilsstaða og Skotveiðifélag Austurlands.
Þá leggur nefndin til að gerðir verði samningar við Hestamannafélagið Freyfaxa og Lyftingafélag Austurlands í samræmi við fyrirliggjandi drög að samningum.
Endurskoða þarf samstarfssamning sveitarfélagsins og Akstursíþróttaklúbbsins Start og er starfsmanni falið að vinna málið áfram.

Leggur nefndin til að gerðir verði eins árs samningar við ofangreind félög í samræmi við fjárhagsáætlun ársins 2018. Íþrótta- og tómstundanefnd felur starfsmanni jafnframt að skoða fyrirkomulag stuðnings sveitarfélagsins við íþrótta- og tómstundafélög til lengri tíma litið.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem nýlega hafa birst um kynferðisbrot gegn konum undir myllumerkinu #metoo, m.a. innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, leggur íþrótta- og tómstundanefnd áherslu á að þau íþrótta- og tómstundafélög sem njóta stuðnings sveitarfélagsins setji sér siðareglur og geri viðbragðs- og fræðsluáætlanir hvað varðar m.a. kynferðisofbeldi, kynferðislega áreitni og hvers konar ofbeldi. Tekið verði á þessum þáttum sérstaklega í samningum við félögin sem taka gildi frá næstu áramótum.

Nefndin leggur jafnframt til að fulltrúar sveitarfélagsins og áðurnefndra félaga setjist niður svo fljótt sem auðið er og fari yfir þessi mál og mögulega aðkomu og aðstoð sveitarfélagsins við slíka vinnu.

Auk þess felur íþrótta- og tómstundanefnd starfsmanni að fara yfir ferla og áætlanir varðandi hvers kyns ofbeldi með forstöðufólki þeirra stofnana sem undir nefndina heyra.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Samstarfssamningur Fljótsdalshéraðs og Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs

201712090

Fyrir liggja drög að endurskoðuðum samningi við Golfklúbb Fljótsdalshéraðs. Íþrótta- og tómstundanefnd leggur til að fyrirliggjandi drög að samningi verði samþykkt.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Skautasvæði

201801059

Fyrir liggur tölvupóstur frá Önju Sæberg frá 6. janúar 2018 þar sem hún lýsir yfir áhuga á skautasvæði fyrir börn.

Íþrótta- og tómstundanefnd þakkar Önju fyrir erindið og tekur undir það að gaman væri að halda úti skautasvæði fyrir börn. Þó er ekki gert ráð fyrir slíku svæði á vegum sveitarfélagsins skv. starfs- og fjárhagsáætlun nefndarinnar á þessu ári.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Vetrarfjör - styrkumsókn

201801060

Fyrir liggur styrkbeiðni frá Ungmennafélaginu Þristi, dagsett 15. janúar 2018, vegna Vetrarfjörs á Héraði - útivistarnámskeiðs fyrir börn og unglinga.

Íþrótta- og tómstundanefnd leggur til að Ungmennafélagið Þristur verði styrkt vegna námskeiðsins um kr. 150.000 sem tekið verði af lið 0689.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Fræðslu- og forvarnamál

201801063

Verkefnastýra íþrótta-, tómstunda- og forvarnamála kynnti áherslur í forvarnamálum fyrir nefndarmönnum.

Fundi slitið - kl. 18:30.