Fara í efni

Breytingar á sorpflokkun og sorphirðu

Þann 1. janúar 2023 tóku gildi ný lög hvað varðar sorphirðu á Íslandi. Þessi lög kveða á um ýmsar breytingar sem þurfa að verða á sorphirðu, sem verður um leið samræmd á landinu öllu. Sveitarfélögum er nú skylt að sækja fjóra flokka af sorpi heim að dyrum: lífrænan úrgang, pappír og pappa, plast og blandaðan úrgang. Lögin kveða einnig á um að sveitarfélög eigi að bjóða upp á grenndargáma fyrir textíl, málma og gler. Textíl verður áfram safnað af Rauða Krossinum en gámar fyrir málma og gler munu koma í grennd við gáma Rauða Krossins.

Breytingarnar fram undan

Íbúar Múlaþings eru vel kunnugir flokkun og er breytingin í sjálfu sér aðeins sú að nú þarf að flokka plast og pappa í sitt hvorn flokkinn og fara með málma og gler í grenndarstöðvar. Íbúar í dreifbýli mega einnig eiga von á að fá til sín ílát fyrir lífrænan úrgang þar sem lögin kveða skýrt á um að sveitarfélaginu ber skylda að sækja þann flokk að öllum heimilum.

Íbúar Múlaþings fá því fjórar tunnur undir þessa flokka. Lífræni úrgangurinn heldur sinni stærð, 120 lítra ílát, pappír og pappi, plast og blandaður úrgangur fá öll 240 lítra ílát, sem er sama stærð og hefur verið á flokkunartunnunni núverandi. Íbúar mega því eiga von á því að fá til sín nýja plasttunnu á tímabilinu 4. – 18. september.

Sorphirða mun ekki taka neinum breytingum á Borgarfirði að svo stöddu.

Kynning Gámafélagsins og Múlaþings

Haldnir voru íbúafundir 21. – 22. ágúst á Seyðisfirði, Egilsstöðum og Djúpavogi þar sem Íslenska Gámafélagið fór yfir þessar breytingar. Hér að neðan má nálgast upptöku af kynningu Íslenska Gámafélagsins.

Flokkunarleiðbeiningar

Flokkunarleiðbeiningar settar fram á myndum. Ef myndin er valin opnast skjal sem hægt er að prenta út. Ítarlegri flokkunarleiðbeiningar má nálgast á heimasíðu Íslenska Gámafélagsins.

Sorting instructions  | Instrukcja sortowania 

Mynd af flokkunartöflu fyrir matarleyfarMynd af flokkunartöflu fyrir pappa og pappírMynd af flokkunartöflu fyrir plast

Spurningar og svör

Svör við spurningum sem komið hafa fram varðandi innleiðingu á samræmdu flokkunarkerfi á landsvísu og útfærslu Múlaþings á því.

  • Hvert fer sorpið?

    Blandaður úrgangur í Múlaþingi er urðaður eins og staðan er í dag, það er því öllum í hag að flokka sem mest og lágmarka þannig blandaðan úrgang. Endurvinnsluefnið fer mestmegnis erlendis, þar sem fyrirtæki flokka það enn frekar og senda allt sem er mögulegt að endurvinna í endurvinnslu, afgangurinn fer til brennslu til orkuframleiðslu.

  • Verða breytingar á sorphirðugjöldum?

    Já, það koma til með að verða breytingar á sorphirðugjöldum. Ný lög kveða á um að sveitarfélögum er ekki lengur heimilt að borga með sorphirðu fyrir íbúa, en það hefur Múlaþing gert hingað til. Gjöldin koma ekki til með að breytast fyrr en á nýju ári.

  • Verður breyting á sorphirðutíðni?

    Til að byrja með verður núverandi sorphirðudagatal áfram í gildi. Það koma hinsvegar til með að verða breytingar á tíðninni eftir því sem reynsla kemur á sorphirðuna. Mun Múlaþing einnig nýta sér reynslu annarra sveitarfélaga við gerð nýs sorphirðudagatals. Þar sem kostnaður fyrir sorphirðu þarf nú að veltast allur yfir á íbúa, verður tíðninni haldið í skefjum eins og hægt er án þess að það valdi íbúum óþægindum, til að halda niðri kostnaði.

  • Hvað með tunnuskýlið mitt?

    Sama breyting er að eiga sér stað um allt land. Sveitarfélög munu ekki standa kostnað af því að breyta eða skipta út tunnuskýlum. Það þurfa íbúar að gera sjálfir sem ábyrgðaraðilar sinna fasteigna. Ýmsar lausnir eru í boði, svosem krókar sem má festa á skýli til að festa fjórðu tunnuna og fást víðsvegar.

  • Hvaða stærðir verða á tunnunum?

    Tunnur fyrir blandaðan úrgang, plast og pappír og pappa munu vera 240 lítra, það er sama stærð og “gráa” og “græna” tunnan er í dag. Lífræna tunnan mun halda sinni stærð, 120 lítra.

  • Hvers vegna verður ekki í boði að fá tvískipta tunnu?

    Ástæða þess að ákveðið hefur verið að bjóða ekki upp á tvískipta tunnu er í raun þríþætt.

    1. Þær eru mikið dýrari í rekstri, tæming á þeim tekur mikið lengri tíma. Hægt er að tæma þrjár venjulegar tunnur á sama tíma og ein tvískipt er tæmd. Það þýðir að gjöld fyrir slíkar tunnur verða mikið hærri, sem skilar sér í hærri sorphirðugjöldum.
    2. Það er erfitt að tæma þær, sérstaklega ef sorpið frýs í þeim. Hönnun tunnunnar er breytt með því að setja í hana skilrúm ásamt því að hólfin eru lítil og þröng. Það veldur því að oft næst ekki að tæma þessar tunnur fyllilega.
    3. Það er erfiðara að þrífa þessar tunnur en þessar venjulegu vegna skilrúmsins sem er sett í hana.
  • Get ég fengið ílát í tunnuna mína fyrir blandaða úrganginn fyrir lífrænan úrgang?

    Vinnueftirlitið hefur mælst gegn þessari leið og Múlaþing mun ekki bjóða upp á þann valkost. Ástæða þess er að vinnuaðstæður sorphirðufólks sem þarf að meðhöndla slík ílát eru óviðunandi. Þessi ílát geta orðið ótrúlega þung, og tæmdar eru margar tunnur á dag sem kallar á gríðarlegan burð. Einnig þýða ílátin að starfsmenn þurfa að handleika úrganginn og eru þannig berskjölduð fyrir ýmsum bakteríum og öðrum örverum.

  • Ég hendi engum lífrænum úrgangi, þarf ég að vera með tunnuna?

    Lögin eru skýr, sveitarfélaginu ber að sækja fjóra flokka upp að heimili og bjóða upp á þá þjónustu fyrir alla, þar á meðal er lífrænn úrgangur. Reynsla hefur einnig sýnt það, að þar sem ekki er boðið upp á tunnu fyrir lífrænan úrgang sýna sýni þá niðurstöðu að magn lífræns efnis er margfalt hærra en þar sem tunnan er í boði. Það á líka við þar sem íbúar eru með heima moltugerð eða annað sem er gert til að nýta hráefnið heima við.

  • Má ég fara með plastið mitt á móttökustöð og sleppa plasttunnunni?

    Lögin eru skýr, sveitarfélaginu ber að sækja fjóra flokka upp að heimili og bjóða upp á þá þjónustu fyrir alla, þar á meðal er plast. Gæði plasts sem safnast á móttökustöðum er lægra, það þýðir að greiðslur úr úrvinnslusjóði eru mikið lægri á hvert kíló en þau sem eru sótt heim að húsi. Hærri greiðslur úr úrvinnslusjóði skila sér síðan í hærri niðurgreiðslu á sorphirðugjöldum.

  • Hvernig verður grenndarstöðvum háttað?

    Grenndarstöðvar koma til með að vera þrjár í til að byrja með, ein á Egilsstöðum, ein á Seyðisfirði og ein á Djúpavogi. Gámar frá Rauða Krossi Íslands munu taka við textíl, líkt og hefur verið undanfarin ár og sinna því hlutverki grenndargáms fyrir textíl. Gámum fyrir annars vegar gler og hins vegar málma mun verða komið fyrir á sama svæði og textílgámarnir eru. Þörf á því að bæta við fleiri stöðvum verður metin eftir því sem reynsla hjá okkur og öðrum sveitarfélögum kemur í ljós.

  • Hvar get ég nálgast frekari leiðbeiningar um flokkun?

    Leiðbeiningar er að finna hér á heimasíðu Múlaþings og á heimasíðu Íslenska Gámafélagsins, einnig er hægt að hafa samband við Íslenska Gámafélagið í síma 577-5757.

  • Þarf ég að skipta út maíspokum fyrir pappírspoka í lífræna sorpinu?

    Eins og staðan er í dag er ekki þörf á að hætta að nota maíspoka í lífræna sorpið. Jarðgerðarferlið er öðruvísi í Reykjavík en í Eyjafirði þangað sem lífræna sorpið okkar fer. Krefst ferlið sem er notast við fyrir Múlaþing í dag ekki að skipt sé í pappírspoka.

  • Verð ég að setja plastið og pappírinn í poka í tunnurnar?

    Nei, það er betra að endurvinnsluefnið, plastið og pappírinn fari pokalaust í tunnurnar því það er betra fyrir flokkunarferlið sem efnið á eftir að fara í gegnum.

  • Má frauðplast fara í plast tunnuna?

    Nei, frauðplast þarf að fara með á móttökustöð.

  • Þarf ég að þvo upp sorpið mitt?

    Það þarf ekki að þrífa sorpið, það er nóg að skola vel og þerra nokkuð vel. Aðal málið er að umbúðirnar séu lausar við efna- og matarleifar. Gott er að hafa í huga að hreinna efni skilar sér í meiri gæðum sorpsins sem skilar sér í hærri greiðslum úr úrvinnslusjóði, sem skilar sér í sorphirðugjöldin. Einnig fer sorpið í enn frekari flokkun þar sem starfsfólk þarf að handleika það.

  • Hvenær á ég að byrja að aðskilja plastið og pappann?

    Byrjað verður að aðskilja plast og pappa þegar fjórða tunnan (plast tunnan) kemur á heimili, henni verður dreift samhliða tæmingu á núverandi endurvinnslutunnu. Báðar tunnur verða því tómar á sama tíma og allir byrja með hreint borð. Tunnum verður dreift 4. til 18. september.

Síðast uppfært 25. október 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?