Sunnudagskaffi með Guðrúnu frá Lundi

Sunnudaginn  23. september, opnar sýningin „Kona á skjön“, í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Sýningin fjallar um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi. Viðburðurinn hefst klukkan 14 og lýkur klukkan 16 en sýningin sjálf stendur fram í nóvember.
 
Sýningarhöfundar eru Kristín Sigurrós Einarsdóttir, leiðsögumaður og kennari, og Marín Guðrún Hrafnsdóttir, bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar. Titill sýningarinnar  er sóttur í lokaverkefni Marínar sem snýst öðrum þræði um að miðla merkum rithöfundaferli Guðrúnar með sýningu sem geymir upplýsingar um ævi hennar og verk á textaspjöldum í bland við persónulega muni.   

Við opnunina segja sýningarhöfundar nokkur orð og að því loknu tekur við kaffikviss - spurningarnar verða úr Dalalífi. Boðið verður upp á kaffi og kleinur í anda Guðrúnar.