Leikhópurinn Lotta í Lómatjarnargarði

Leikhópurinn Lotta sýnir Ljóta andarungann, glænýtt íslenskt leikrit með söngvum, í Lómatjarnargarðinum á Egilsstöðum, laugardaginn 3. júní klukkan 12:00 og sunnudaginn 23. júlí klukkan 16:00.

 Ljóti andarunginn er ný útgáfa Leikhópsins Lottu af klassísku ævintýri H. C. Andersen um litla ungann sem hvergi virðist eiga heima. Lotta notar hér tækifærið til að takast á við erfitt samfélagsvandamál, nefnilega einelti. Til að bæta við skemmtanagildið og um leið styðja boðskapinn blandar Lotta saman fimm sögum en auk Ljóta andarungans kynnumst við Öskubusku, Kiðlingunum sjö, Héranum og skjaldbökunni og Prinsessunni á bauninni. Ævintýrin eru síðan öll límd saman með nýjum íslenskum lögum svo úr verður sannkölluð fjölskylduskemmtun.

 Höfundur Ljóta andarungans er Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er sjöunda leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið. Textarnir eru eftir Önnu Bergljótu, utan eins sem er eftir Baldur Ragnarsson en lögin sömdu Helga Ragnarsdóttir og Rósa Ásgeirsdóttir.

Þetta er ellefta sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Litaland, Litlu gulu hænuna, Hróa hött, Gilitrutt, Stígvélaða köttinn, Mjallhvíti og dvergana sjö, Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi. Hópurinn frumsýnir Ljóta andarungann í Elliðaárdalnum í Reykjavík miðvikudaginn 24. maí, en í framhaldinu mun hópurinn ferðast með sýninguna og heimsækja yfir 50 staði víðsvegar um landið.

Miðaverð á sýninguna er 2.300 krónur og ekki þarf að panta miða fyrirfram heldur er alveg nóg að mæta bara á staðinn. Gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu. Öllum þykir jú gaman að eiga mynd af sér með uppáhalds vini sínum úr Ævintýraskóginum.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.leikhopurinnlotta.is og í síma 770-0403.