Kvikmyndaviðburður í Sláturhúsinu

Rússneskur kvikmyndaviðburður verður í Sláturhúsinu menningarsetri á Egilsstöðum miðvikudaginn 19. september kl. 20.00. Tvær myndir eru á sérstakri dagskrá Sláturhússins af þessu tilefni, báðar gríðarlega áhugaverðar fyrir kvikmyndaáhugafólk, ljósmyndara og þá sem heillast af sjónrænu listfengi. Annars vegar er um að ræða 70 ára gamla heimildamynd sem heitir SÍLDVEIÐI VIÐ ÍSLANDSSTRENDUR, sem nýverið fannst á Ríkisþjóðskjalasafni kvikmynda og ljósmynda í Rússlandi. Myndin er 19 mínútur að lengd og er kvikmyndaþrekvirki þar sem hún er tekin upp á stóreflis filmutökuvélar úti á sjó (fyrir 70 árum). Myndin er textuð á íslensku.

Hins vegar er um að ræða myndina BOTNLAUS BELGUR eftir Rústam Khamdamov, meistaraverk á heimsmælikvarða sem varð stórviðburður á kvikmyndahátíðinni í Moskvu í fyrra. Höfundur er listmálari og teiknari, kunnáttumaður um listastefnur. Myndin er svart-hvít en kvikmyndað er í gömlum höllum og á höfðingjasetrum í Pétursborg; sérhver rammi er fagur. Nú til dags geta fáir aðrir leyft sér að skapa þvílíkt augnayndi sem er svo óendanlega fjarri raunveruleikanum, svo tæra list. Allan tímann svarar sögukona spurningum sem snúast um lífið sjálft. Botnlaus belgur er tómur belgur fyrir óinnvígða en í raun er hann sneisafullur af gersemum og töfrum. Hirðkona í furstahöll segir ævintýri um dularfullt morð á konungssyni í skógi á 13. öld. Myndin er með enskum texta.

 Allir eru velkomnir.

 https://www.facebook.com/events/532138183866936/