Vinnuskóli Fljótsdalshéraðs fær viðurkenningu

Landgræðsluverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti í vikunni. Vinnuskóli Fljótsdalshéraðs hlaut verðlaun ásamt Gunnari Einarssyni og Guðrúnu Sigríði Kristjánsdóttur, Daðastöðum í Öxarfirði, Gunnari B. Dungal og Þórdísi A. Sigurðardóttur, Dallandi í Mosfellsbæ og Þorvaldi Jónssyni og Ólöfu Guðmundsdóttur, Brekkukoti í Reykholtsdal. Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfisráðherra.

Björn Ingimarsson bæjarstjóri og Freyr Ævarsson, verkefnisstjóri umhverfismála, tóku við viðurkenningunni fyrir hönd Vinnuskólans

Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Viðurkenning er ætluð til að vekja athygli þjóðarinnar á fórnfúsu starfi fólks að landgræðslumálum og ásamt því að hvetja aðra til dáða. Nánari upplýsingar um verðlaunin og verðlaunhafa má sjá á vef Landgræðslunnar en þaðan er myndin tekin.