Viljayfirlýsing um Matvælamiðstöð Austurlands

Í dag, mánudaginn 22. júní, var undirrituð viljayfirlýsing um stofnun Matvælamiðstöðvar Austurlands, á Egilsstöðum.

Síðustu misseri hafa áhugasamir aðilar um smáframleiðslu matvæla leitað leiða til þess að nýta rými í húsi Mjólkurstöðvarinnar á Egilsstöðum. Mikil gerjun hefur átt sér stað og fjöldi hugmynda verið ræddar. Þessi vinna hefur farið fram undir stjórn Þróunarfélags Austurlands ásamt mjólkurframleiðendum á Héraði, Búnaðarsambandi Austurlands og Auðhumlu. Til liðs við verkefnið hafa nú komið Matís og sveitarfélagið Fljótsdalshérað. Ákveðið hefur verið að gefa verkefninu nafnið, Matvælamiðstöð Austurlands.

Meginmarkmið verkefnisins er að byggja upp þróunarsetur fyrir smáframleiðslu matvæla, þ.e.a.s. koma á smáframleiðslu, vöruþróun og rannsóknum á afurðum úr héraði og nýta rými mjólkurstöðvarinnar í þeim tilgangi. Rými það í mjólkurstöðinni á Egilsstöðum sem ekki er notað til mjólkurvinnslu í dag mun verða nýtt í þessum tilgangi. Auðhumla mun leggja til húsnæðið og verður samið sérstaklega um það sem
og þann búnað sem tiltækur er. Samstarfsaðilar munu í sameiningu vinna að því að tryggja framgang verkefnisins svo hægt verði að nýta aðstöðuna í mjólkurstöðinni m.a. til þróunarstarfs, kennslu, námskeiðahalds og tilraunastarfsemi í matvælaiðnaði.

Þau sem undirrituðu viljayfirlýsinguna voru Magnús Ólafsson forstjóri Mjólkursamsölunnar, Jóhann G. Jóhannsson formaður Félags kúabænda á Héraði, Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís, Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir formaður Búnaðarsambands Austurlands, Eiríkur B. Björgvinsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og Stefán Stefánsson framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands.