Vetrarstarf í Stafdal komið í gang

Vetrardagskrá Skíðafélagsins í Stafdal er komin út og má finna hana á heimasíðu skíðafélagsins www.stafdalur.is. Meðal þess sem kemur þar fram er að þjálfarar í Krílaskóla og Ævintýraskóla eru Unnur, Þórdís og Helga Jóna. Í Krílaskóla eru krakkar sem eru að stíga sín fyrstu skref á skíðum. Lágmarksaldur í krílaskóla er 3 ár. Krílaskólinn fer alfarið fram í barnalyftunni en þar eru lagðar brautir og þrautir til að auka færni krakkanna á skíðum. Markmiðið í Krílaskólanum er að koma krökkum af stað í skíðmennskunni og kynna fyrir þeim þessa skemmtilegu íþrótt.

Í Ævintýraskóla eru krakkar á öllum aldri sem eru orðnir nokkuð sjálfbjarga á skíðum og geta bjargað sér sjálfir í stóru lyftunni og brekkunni. Lágmarksaldur í Ævintýraskóla er 4 ár. Markmiðið í Ævintýraskólanum er að allir hafi gaman af skíðamennskunni og verði betri skíðamenn. Í vetrarlok eiga allir að hafa öðlast betri skíðafærni og vera farnir að tileinka sér grunntækni í skíðaíþróttinni. Krakkar geta að sjálfsögðu flust úr Krílaskóla yfir í Ævintýraskóla hafi þeir öðlast færni til.

Þjálfarar á æfingum í vetur eru Halldór Halldórsson,Hildur Jóna Gunnlaugsdóttir, Sigríður Þorláksdóttir Baxter, Þórdís Guðmundsdóttir og Helga Jóna Svansdóttir. Æfingahóp er í megindráttum skipt í tvo hópa eftir aldri og getu.

Í hóp A eru yngstu æfingakrakkarnir og krakkar sem eru að hefja æfingar á skíðum. Á æfingum hjá hóp A er lögð áhersla á leik og þjálfun í tækniskíðun, en einnig er farið í brautir. Allir í hópnum verða að geta bjargað sér í stóru lyftunni og brekkunum þar. Lágmarks á æfingum er 6 ár.

Í hóp B eru krakkar sem hafa æft markvisst skíði í a.m.k. 1-2 ár og hafa náð færni til að fylgja hópnum eftir. Hópnum verður skipt niður í minni hópa eftir aldri og getu. Lítil rúta fer frá íþróttahúsinu í Egilsstöðum á æfingadögum.