Verðlaunuð fyrir samspil í Hörpunni

Lokakeppni Nótunnar 2013 fór fram sunnudaginn 14. apríl í Eldborgarsalnum í Hörpunni í Reykjavík. Á þessum tónleikum komu fram þau atriði sem urðu hlutskörpust í hinum fernu svæðistónleikum sem haldnir voru á Egilsstöðum, Selfossi, Reykjavík og Ísafirði.


Keppt var í þremur flokkum; Grunnnámi, Miðnámi og Framhaldsnámi og veitt voru verðlaun í einleik, samleik og frumlegt/frumsamið í hverjum flokki alls 9 verðlaun.
Haldnir voru tvennir tónleikar, alls 24 atriði og rúmlega 150 tónlistarnemendur stigu á sviðið í Eldborginni þennan dag.

Atriðin voru hvert öðru glæsilegri og valnefnd ekki öfundsverð af hlutskipti sínu en hana skipuðu Arna Kristín Einarsdóttir tónleikastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Högni Egilsson tónlistarmaður og Peter Máté píanóleikari.

Tveir nemendur kepptu fyrir hönd Tónlistarskólans á Egilsstöðum. Það voru þau Erlingur Gísli Björnsson og Karen Ósk Björnsdóttir sem léku dúett á píanó, lagið Frjáls vindur eftir sovéska tónskáldið Isaak Dunayevskíj. Þau stóðu sig frábærlega, spiluðu eins og englar og vöktu aðdáun fyrir fallega og örugga framkomu. Skemmst er frá að segja að þau hlutu verðlaun í samspilsflokki í grunnnámi.

Þetta er í fyrsta sinn sem atriði frá Austurlandi hlýtur verðlaun á lokatónleikum Nótunnar og er starfsfólk skólans afskaplega stolt af þeim Karen og Erling. En einnig á kennarinn þeirra hann Zigmas Genutis stóran þátt í árangri þeirra því hann hefur lagt mikla vinnu í að kenna þeim og þjálfa og er óþreytandi að halda aukasamæfingar fyrir þau.