Vefsíða opnuð og fyrirlestrar um sauðkindina

Á síðustu árum hefur talsverð samvinna verið milli listamanna sem og fólks í menningar- og ferðaþjónustugeirunum á Austurlandi, í Vesterålen í Norður-Noregi og í Donegal-sýslu á Írlandi. Ein af afurðum þessarar samvinnu er heimasíða sem Minjasafn Austurlands hefur sett upp í samstarfi við Museum Nord í Noregi og Donegal County Museum á Írlandi um sauðkindina og afurðir hennar. Í tilefni af opnun þessar heimasíðu er boðað til fagnaðar í dag, þriðjudaginn 10. nóvember kl. 18.00 í Skriðuklaustri.

Auk þess sem vefsíða um sauðkindina verður opnuð verða flutt eftirfarandi erindi:
• Guðfinna Harpa Árnadóttir, héraðsráðunautur, Búnaðarsambandi Austurlands: “Sauðkindin-atvinnuvegur”
• Ingunn Anna Þráinsdóttir, grafískur hönnuður/listamaður: “Gamla gæra, taka tvö”
• Elfa Hlín Pétursdóttir, safnstjóri, Minjasafni Austurlands: “Hin heilaga rolla. Sauðkindin í íslenskri þjóðarsál”
Þá verður heimasíðan opnuð formlega og kynnt gestum.

Museum Nord í Noregi, Donegal County Museum á Írlandi og Minjasafn Austurlands hafa unnið saman síðan vorið 2007 að verkefni þar sem aðalhugmyndin var samvinna hefðbundinna minjasafna og skapandi listamanna. Ákveðið var að vinna með kindur og ull á hverju svæði fyrir sig í tengslum við fjögur meginþemu: listir, handverk og hönnun, sögu, táknmyndir og þjóðernishyggju.
Hvert safn setti upp sína sýningu auk þessarar sameiginlegu heimasíðu sem á að miðla afrakstri verkefnisins.