Ungt fólk og lýðræði - skipulagsmál

UMFÍ heldur ungmennaráðstefnuna „Ungt fólk og lýðræði“  á Egilsstöðum dagana 20. – 22. mars. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni verður þátttaka ungs fólk í skipulagsmálum sveitarfélaga. 60 manns hafa skráð sig til þátttöku, bæði ungmenni sem starfa í ungmennaráðum víðsvegar um landið og starfsmenn sem sjá um málefni ungmenna í sínu sveitafélagi.

Ungmenna- og Íþróttasamband Austurlands er gestgjafi ráðstefunnar að þessu sinni og kemur að undirbúning hennar í samstafi við Fljótsdalshérað.

Fyrirlesarar verða Katrín Karlsdóttir, M.Sc. í skipulagsverkfræði og umhverfissálarfræði, og Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir. Katrín hefur unnið mikið með þátttöku ungs fólks í skipulagsmálum og lýðræði þeirra og tengt inn í sitt nám. Umboðsmaður barna er mikilvægur hlekkur í lýðræðisumræðunni og tengir sitt erindi við þátttöku ungs fólks í skipulagsmálum.


Þátttakendur vinna í vinnustofum með þema ráðstefnunnar á meðan henni stendur og kynna niðurstöður sínar þann 22. mars klukkan 13 í hátíðarsal Hótel Valaskjálf. Kynning á niðurstöðum verður opin og allir sem áhuga hafa eru boðnir velkomnir.