Ungmennaráðið ályktar um málefni ungs fólks

Á fundi ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs þann 18. nóvember voru athyglisverð mál á
dagskrá, eins og svo oft áður. Þannig tók ungmennaráðið undir niðurstöðu á málþinginu Þátttaka er lífsstíll, sem haldið var á Norðfirði fyrir stuttu, þar sem því er beint til sveitarfélaga á Austurlandi að komið verði á sameiginlegu ungmennaráði fyrir svæðið allt.

Þá var á fundi ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs fjallað um félagsmiðstöðvarnar Nýung og Afrek og hvatti ráðið „ungt fólk til að taka þátt í starfi félagsmiðstöðvanna og minnir á að bæði Nýung og Afrek eru opnar fyrir nemendur í öllum grunnskólum sveitarfélagsins. Þá er einnig opið í Sláturhúsinu fyrir grunnskólanemendur, sem og aldurshópinn 16-20 ára", eins og segir í fundargerð ráðsins. Því var einnig beint til forstöðumanns félagsmiðstöðvanna að kanna kostnað og möguleika á skipulagi og fjármögnun ferðar á Samfésmót svo nemendur úr grunnskólum á Fljótsdalshéraði geti farið á það.

Aðgangur að íþróttamiðstöðinni var einnig til umræðu og „aðgangur yngra fólks
að líkamsræktarstöðvum, opnunartími sundlaugar og aðgangur íþróttafólks í afreksþjálfun
að líkamsræktarstöð". Þess var síðan óskað að forstöðumaður íþróttamiðstöðvar komi á næsta fund ungmennaráðs til að fara yfir ofangreind mál.

Að lokum hvatti ungmennaráð nefndir sveitarfélagsins til að vísa málum sem varða ungt fólk í sveitarfélaginu til umsagnar hjá ungmennaráði. „Gert er ráð fyrir því í samþykktum ungmennaráðs að ráðið hafi þetta hlutverk enda er það í góðu samræmi við eðlilegt lýðræðislegt ferli. Ungmennaráð minnir á að engar ákvarðanir um okkur eiga að vera teknar án okkar," eins og segir í bókun ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs.

Fundargerð ungmennaráðs má sjá hér