Ungmennaráð fundar með bæjarstjórn

Þriðjudaginn 16. júní var haldinn 100. fundur bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs. Fyrst á dagskrá var sameiginlegur árlegur fundur ungmennaráðs og bæjarstjórnar. Kosið er í ungmennaráðið í upphafi skólaárs, ár hvert, og því var þetta síðasti fundur ráðsins sem tók til starfa síðast liðið haust.

Í fundargerð bæjarstjórnar kemur fram að fulltrúar ungmennaráðsins gerðu grein fyrir niðurstöðum ungmennaþings sem haldið var í vetur. Á fundinum var farið yfir þá liði sem voru til umfjöllunar á þinginu og áhersluatriðum komið á framfæri við bæjarstjórn. Áfengisdrykkja unglinga á Fljótsdalshéraði var nokkuð rædd og aðgegni þeirra að áfengi og vímuefnum. Í máli ungmennaráðsfulltrúa kom einnig fram að þeim fyndist vanta meira starf á sviði forvarna og að þeim væri beint í aðrar áttir en nú er. Þá kom fram hjá fulltrúum ungmennaráðsins að þeir óskuðu eftir fleiri dansleikjum fyrir 14 ára unglinga á vegum félagsmiðstöðvanna. Atvinna fyrir ungt fólk var þeim einnig hugleikin og kostnaður unglinga við íþróttir og tómstundir.  Loks var fjallað um íþróttastarf og aðstöðu til íþróttaiðkunar og þátttöku ungmenna í skipulögðum viðburðum. Meðal annars lögðu ungmennaráðsfulltrúarnir til að ávextir og „Bústbar“ væru í boði í Íþróttamiðstöðinni í staðinn fyrir það sælgæti og ís sem nú er hægt að nálgast þar.