Umferð brátt hleypt á nýjan vegarkafla í Skriðdal

Nú standa vonir til þess að í lok októbermánaðar verði hægt að hleypa umferð á nýjan 11 km langan vegarkafla sem nær frá Litla-Sandfelli inn undir Hauga í Skriðdal. Verklok eru áætluð á miðju næsta sumri, en gerð sjálfs vegarins og þriggja brúa er að mestu lokið. Eftir er að leggja rúman kílómetra af fyrra slitlaginu, en seinna lagið verður lagt næsta sumar. Eins er verið að vinna að lokafrágangi við brúargerðina. Það er Héraðsverk sem annast hefur framkvæmdina, en Mikael ehf. er undirverktaki við brúargerðina. Við þessa nýju vegtengingu er komið samfellt slitlag á veginn frá Egilsstöðum inn að Skriðuvatni. Eftir er hins vegar að byggja upp veginn meðfram vatninu og inn Grófina, áður en hægt verður að leggja slitlag á hann að Breiðdalsheiði og Axarvegamótum.