Tour de Ormurinn 12. ágúst

Tour de Ormurinn er hjólreiðakeppni umhverfis Lagarfljótið sem haldin verður þann 12. ágúst og hefst og lýkur í Hallormsstaðarskógi. Keppnin er hluti af Ormsteiti og verður líf og fjör í Hallormsstaðaskógi þegar keppendur koma í mark. Keppnisvegalengdir eru tvær. Annars vegar er það umhverfis Orminn langa sem er 68 km hringur. Ræst verður við bílastæðið hjá Mörkinni í Hallormsstaðaskógi, hjólað til Egilsstaða og áfram inn í Fellabæ (fyrstu tæplega 40 km á bundnu slitlagi), hjólað inn Fellinn og Fljótsdal (um 20 km á malarvegi), farið yfir ,,nýju" brúna yfir Jökulsá í Fljótsdal og aftur í Hallormsstaðaskóg (um10 km á bundun slitlagi). Þessari vegalengd verður hvoru tveggja hægt að taka í einstaklingskeppni og liðakeppni. Í liðakeppni keppa þrír saman í liði og er hringnum þá skipt í þrjá leggi um 23 km, um 23 km og um 22 km.
Hins vegar er það Hörkutólahringurinn sem er 103 km hringur. Farin er sama leið og í styttri hringnum, þar til kemur að ,,nýju” brúnni yfir Jökulsá í Fljótsdal, þá er haldið áfram inn Norðurdal og farið yfir innstu brú yfir Jökulsá í Fljótsdal, (9 km kafli á grófum malarvegi) og haldið áleiðis út Fljótsdal og út í Hallormsstaðaskóg (um 8 km á malarvegi og svo bundið slitlag síðustu kílómetrana). Eingöngu er boðið uppá einstaklingskeppni í þessari vegalengd.
Ræst verður kl. 9.00 á sunnudagsmorgni 12. ágúst, en kl. 8.15 verður fundur við rásmark með keppendum þar sem farið verður yfir leiðina, öryggisráðstafanir og aðra þætti keppninnar.
Fljótsdalshreppur gefur glæsileg verðlaun fyrstu þremur keppendum í hvorum flokki, svo og fyrsta liði í hvorum flokki. Auk þess sem skemmtileg útdráttarverðlaun verða veitt heppnum þátttakendum. Allir keppendur fá þátttökupening í viðurkenningarskyni fyrir þátttökuna.
Skráning í Tour de Ormurinn er á uia@uia.is og þar þarf að koma fram: Nafn, kennitala og heimilsfang keppenda, netfang og símanúmer í hvaða vegalend keppandi ætlar. Lið þurfa að senda inn upplýsingar um nöfn, kennitölur og heimilsföng, netföng og símanúmer allra liðsmanna, og tilgreina einn tengilið liðsins.
Skráningargjöld eru:
Umhverfis orminn langa 68 km einstaklingskeppni, 1000 kr
Umhverfis orminn langa 68 km liðakeppni 3000 kr á lið
Hörkutólahringurinn 103 km, 2000 kr.
Keppt verður í flokkum karla og kvenna í einstaklings kepninni og er lámarksaldur keppenda 14 ára.
Í liðakeppni er keppt í opnum flokki, þ.e. lið mega vera blönduð jafnt sem lið karla og lið kvenna.
Nánari upplýsingar veitir skrifstofa UÍA í síma 4711353 eða í gegnum tölvupóst uia@uia.is