Tannverndarvika 4.-8. febrúar 2019

Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku 4.-8. febrúar 2019 með skilaboðum til landsmanna um að huga vel að tannheilsunni og skráningu hjá heimilistannlækni. Sérstök áhersla tannverndarvikunnar í ár verður lögð á tannheilsu fólks með geðraskanir.

Stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla eru hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast tönnum og tannheilsu. Fræðsluefni og myndbönd um tannhirðu má nálgast á landlaeknir.is og heilsuvera.is þar sem einnig má finna myndbandið „Þetta er ekki flókið“ þar sem ungt fólk er hvatt til þess að huga vel að tannheilsunni.

Á Íslandi tryggir samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga börnum undir 18 ára aldri gjaldfrjálsar tannlækningar, fyrir utan 2500 króna árlegt komugjald sem greitt er einu sinni á 12 mánaða fresti. Forsenda greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er að barnið hafi heimilistannlækni og foreldrar bera ábyrgð á tímapöntun hjá tannlækni og skráningunni í Réttindagátt Sjúkratrygginga. Tannlæknar geta einnig klárað skráninguna, þegar mætt er í bókaðan tíma. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að panta tíma í fyrstu tannskoðun þegar barnið er tveggja ára.

Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til nauðsynlegra tannlækninga. Nánari upplýsingar má finna á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Upplýsingar um tannheilsu og fræðslu tengt tannheilsu má fá á heimasíðu Embættis landlæknis.