Svæðisráð foreldrafélaga stofnað

Miðvikudaginn 3. júní var gengið formlega frá stofnun svæðisráðs foreldrafélaga við grunnskólana á Fljótsdalshéraði. Með stofnun svæðisráðsins er orðinn til formlegur samstarfsvettvangur foreldrafélaganna og um leið málsvari foreldra grunnskólanemenda.


Svæðisráðið – eða „Héraðsforeldrar“, eins og þau kalla sig, mun veita fræðslunefnd umsagnir um ýmis mál og verða sveitarfélaginu til ráðuneytis um skóla- og fjölskyldumál. Tilgangur svæðisráðsins er að styrkja rödd foreldra sem hagsmunahóps í sveitarfélaginu og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum. Svæðisráð mun skipa fastan fulltrúa foreldra úr sínum hópi sem áheyrnarfulltrúa á fundum fræðslunefndar auk þess sem það tilnefnir fulltrúa í fulltrúaráð Heimilis og skóla og tryggir með þeim hætti beina aðkomu og virk tengsl við landssamtök foreldra.


Formaður svæðisráðsins á fyrsta starfsári þess var kjörin Sigrún Blöndal, áheyrnarfulltrúi á fundi fræðslunefndar var kjörinn Skúli Björn Gunnarsson og fulltrúi í fulltrúaráð Heimilis og skóla, Þorbjörg Ásbjörnsdóttir.