Stefán og Helga Jóna hlutu Þorrann í ár

Þorrinn var afhentur í 18. sinn á Þorrablóti Egilsstaða á föstudaginn, en hver þorrablótsnefnd velur einhvern sem þykir hafa unnið með sérstökum hætti að málefnum sem komið hafa samfélaginu til góða.

Nefndin í ár var einhuga í vali sínu á þeim sem hlytu Þorrann 2015, en það voru hjónin Stefán Þórarinsson og Helga Jóna Þorkelsdóttir.

Sigrún Blöndal forseti bæjarstjórnar afhenti Þorrann og kynnti verðlaunahafa með eftirfarandi orðum:

„Við höfum á síðustu misserum verið minnt á mikilvægi góðrar heilbrigðisþjónustu og félagsstarfs.
Að þessu sinni fer þorrinn til hjóna sem hafa í tæplega 40 ár styrkt samfélag okkar á sviði heilsugæslu, félagsstarfs og sálgæslu með mannlegri gæsku sinni, langt umfram það sem hægt er að fara fram á að fólk geri í starfi sínu.

Við stöndum í þakkarskuld við allt það fólk sem starfar innan heilbrigðisþjónustunnar og einnig þá, sem á síðustu áratugum, hafa byggt þjónustu upp í fjórðungnum. Austfirðingar hafa að mörgu leyti verið í fararbroddi á þessu sviði og þótti nefndinni því einkar vel við hæfi að veita lækni hér í bæ þorrann. Læknir þessi hefur um langt skeið starfað við og haft forgöngu um þá miklu framþróun sem orðið hefur á þessu sviði á Austurlandi.

En það er ekki síður vegna hinnar einstöku alúðar og fórnfýsi gagnvart þeim sem eiga um sárt að binda, sem nefndinni fannst læknir þessi eiga þorrann skilið og vel það.

Eftir að hafa komist að þessari niðurstöðu, þá áttaði nefndin sig hins vegar á því að læknirinn hefði aldrei getað skilað þessu frábæra starfi sínu, ef ekki hefði verið fyrir þá miklu afbragðs eiginkonu sem hann á. Auk þess að vera stoð og stytta eiginmanns síns og límið í fjölskyldunni, þá hefur hún um árabil starfað að félagsstarfi eldri borgara og handavinnukennslu.

Hjónin sem hér um ræðir eru Stefán Þórarinsson og Helga Jóna Þorkelsdóttir. Ég vil biðja þau um að koma upp á sviðið og veita Þorranum viðtöku.

Stefán Þórarinsson er fæddur 1947 á Eiðum. Hann flutti til Reykjavíkur með foreldrum sínum árið 1964, en var þá búinn að skrá sig í Menntaskólann á Akureyri. Þaðan útskrifaðist hann sem stúdent árið 1968.
Hann fór beint í læknisfræði í Háskóla Íslands, útskrifaðist þaðan 1975 og kom til starfa hér á Egilsstöðum á kandidatsári sínu sumarið 1976. Stefán nam frekari læknisfræði í Svíþjóð 1978 til 1980, en kom aftur hingað og tók við embætti héraðslæknis árið 1982.

Í starfi sínu sem héraðslæknir á þessum tíma fór Stefán m.a. með málefni sóttvarna, heilbrigðiseftirlits og fatlaðra. Hann tók virkan þátt í frekari þróun þessara málaflokka, m.a. með stofnun Heilbrigðiseftirlits Austurlands og svæðisstjórnar málefna fatlaðra.

Þegar HSA tók til starfa 1. janúar 1999 varð Stefán lækningaforstjóri, sem síðar var kallað framkvæmdastjóri lækninga og því starfi gegndi hann allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir áramótin 2013 / 2014. Hann er reyndar hvergi hættur að gefa af sér frekar en kona hans.

Til gaman er rétt að minnast hér aðeins á íþróttaferil Stefáns. Sá ferill hófst í markinu hjá Spyrni upp úr 1960. Stefán var að kunnugra sögn mjög góður markvörður. Mun hann hafa kennt Halldóri yngri bróður sínum helstu trikkin og Halldór kenndi syni sínum þau. Sem sýnir okkur að Stefán á mikið í landsliðsmarkverði okkar í knattspyrnu, Hannesi Þór Halldórssyni!

Stefán varð fyrsti Íslandsmeistari landsins í blaki með liði Íþróttafélags stúdenta. Þá var Stefán valinn í landslið í körfuknattleik, lék reyndar ekki opinberan landsleik, heldur leik við lið frá Kentucky State háskólanum í Bandaríkjunum. Og þá verður að nefna þátt hans í að vekja áhuga á skíðagöngu en hann hefur m.a. tekið þátt í Vasagöngunni í Svíþjóð nokkrum sinnum og þykir það ekki á allra færi að ljúka þeirri 92 kílómetra göngu.

Helga Jóna Þorkelsdóttir er fædd 1947 í Bolungarvík. Hún er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1968 og þar kynntust þau hjónin. Hún lauk handavinnukennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970.
Helga Jóna starfaði í einn vetur sem kennari við Húsmæðraskólann á Hallormsstað, en einbeitti sér síðan að húsmóðurstörfum enda nóg að starfa með stórt heimili.

Eftir að hafa verið húsmóðir í 20 ár hóf Helga Jóna störf hjá félagsþjónustu eldri borgara á Fljótsdalshéraði og starfaði þar í 21 ár, en hún hefur nú látið af störfum.

Helga Jóna hefur verið öflug í ýmsu félagsstarfi, starfað mikið með Kvenfélaginu Bláklukku og setið í sóknarnefnd Egilsstaðakirkju auk þess að starfa við heimsóknarþjónustu aldraðra.

Helga Jóna kom að stofnun foreldrafélags Egilsstaðaskóla og var á sínum tíma í stjórn fimleikadeildar Hattar.

Stefán og Helga Jóna giftust 1971 og eiga fjögur börn saman.

Stefán og Helga Jóna:

Ykkur er veittur Þorrinn 2015 fyrir brautryðjandastarfa í þágu heilbrigðismála og sálgæslu auk áratuga starfs í þágu samborgaranna á Fljótsdalshéraði, með djúpu þakklæti frá okkur öllum.“