Söguganga með eldri borgurum

Þessa dagana eru svokallaðar Sögugöngur í leikskólanum Tjarnarlandi en þær hafa verið árviss viðburður í skólastarfinu til nokkurra ára. Á haustönn er þemað í Tjarnarlandi „menning, samfélag og umhverfi“ og eru sögugöngurnar liður í því þema. Þessar göngur fara þannig fram að eldri borgarar eða einhverjir sem ólust upp á Egilsstöðum á fyrstu árum bæjarins, ganga með litlum nemendahópum og kennurum þeirra um gamla bæinn og segja frá ýmsu því sem fyrir augu ber. Oft eru skoðuð nöfn gömlu húsanna, rætt um hvernig var umhorfs á Egilsstöðum þegar sögumaðurinn kom hingað fyrst og hvar og hvernig börnin á Egilsstöðum léku sér í gamla daga. Á myndinni sem fylgir þessari frétt er Sævar Sigurbjarnarson ásamt Sigríði kennara að ganga með drengjahóp um gamla bæinn. Hópurinn kom við í Kaupþingi og skoðaði stórt málverk eftir Steinþór Eiríksson listmálara, en hann var einn af frumbyggjum bæjarins og reisti sér eitt af fyrstu íbúðarhúsum í bænum. Börnin fá svo tækifæri til að vinna ýmis konar verkefni um það sem vakti  athygli þeirra í sögugöngunum.
Leikskólinn er þakklátur öllu „sögufólkinu“ sem hefur svo sannarlega lagt sitt að mörkum til að auðga skólastarfið í Tjarnarlandi.