Skorað á Alþingi vegna Axarvegar

Myndin er tekin af vef Vegagerðarinnar
Myndin er tekin af vef Vegagerðarinnar

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, afhenti á þriðjudag Bergþóri Ólasyni, formanni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, áskorun undirritaða af fulltrúum allra framboða í bæjarstjórn, úr sveitarstjórnum sveitarfélaganna sem sameinast í ár, atvinnulífs og annarra áhugasamra aðila. Í áskoruninni er skorað á Alþingi og samgönguyfirvöld að eyða óvissu um framgang nýs vegar yfir Öxi.

Gert er ráð fyrir Axarvegi í fyrirliggjandi frumvarpi um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum og hefur bæjarráð einróma samþykkt ályktun til stuðnings frumvarpinu, sem er nú í meðförum Alþingis.

Auk Bergþórs hitti Stefán Bogi að máli Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, 1. þingmann Norðausturkjördæmis, og afhenti þeim einnig samskonar áskoranir.