Skógarsel flaggar Grænfánanum

Á fimmtudaginn var í síðustu viku, þann 29. maí, tók leikskólinn Skógarsel í Hallormsstað við Grænfánanum, fyrstur leikskóla á Fljótsdalshéraði. En Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.

Starfsfólk og nemendur leikskólans auk bæjarstjóra og verkefnisstjóra umhverfismála hjá Fljótsdalshéraði komu saman í garðinum á Hallormsstað og héldu upp á daginn með því að gæða sér á ávöxtum áður en hópurinn gekk fylktu liði að fánastöng skólans þar sem grænfáninn var dreginn á hún. Það var Rán Þórarinsdóttir sem afhenti fánann.

Hér er hægt að fá meiri upplýsingar um Grænfánaverkefnið http://www.landvernd.is/graenfaninn/yflokkar.asp?flokkur=1055